Ákvörðun Gunnars Svavarssonar, forystuþingmanns Samfylkingarinnar í Kraganum, um að hætta þingmennsku þegar þingi lýkur í vor kom mörgum samfylkingarmönnum í opna skjöldu, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Þingmenn flokksins sem Morgunblaðið ræddi við höfðu þó aðra sögu að segja. Flestir viðmælenda voru sammála um að Gunnar hefði liðið fyrir það „að vera ekki í klíkunni“ hjá formanni flokksins, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.
Frá því Gunnar sigraði Þórunni Sveinbjarnardóttur í prófkjöri flokksins fyrir kosningarnar 2007 hefur staða hans gagnvart Ingibjörgu Sólrúnu, og hennar helstu bandamönnum, ekki verið „sérlega góð“. Margir töldu nær öruggt að Gunnar yrði ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar en allt kom fyrir ekki. Þórunn varð umhverfisráðherra en Gunnar ekki.
Margir viðmælenda Morgunblaðsins, bæði innan þingflokks Samfylkingarinnar og meðal almennra flokksmanna, telja það geta verið flokknum dýrt ef stuðningsmenn Gunnars fylkja sér ekki að baki forystumanni Samfylkingarinnar í Kraganum. Í Hafnarfirði, heimabæ Gunnars sem er jafnframt eitt helst vígi flokksins, er nú töluverður þrýstingur á æðstu menn Samfylkingarinnar í Hafnarfirði að bjóða sig fram gegn Þórunni.
Helst eru nefndir Lúðvík Geirsson bæjarstjóri og Gunnar Axel Axelsson, formaður flokksins í bænum, í því samhengi. Margir bjuggust við því að Gunnar yrði ráðherra í ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar eftir „vasklega framgöngu“ hans sem formaður fjárlaganefndar, eins og einn viðmælenda komst að orði. En úr því varð ekki. Aftur voru aðrir teknir fram fyrir þrátt fyrir víðtækan stuðning og að margra mati „þverpólitískt traust“ eftir vandasama vinnu við fjárlagagerð á haustmánuðum. Þingmenn Samfylkingarinnar sem Morgunblaðið ræddi við sögðu mikla eftirsjá að Gunnari. Hann hefði verið duglegur og ósérhlífinn ekki síst við að afla upplýsinga um stöðu mála í atvinnulífinu eftir bankahrunið í haust.
„Mér finnst mikil eftirsjá að Gunnari. Hann starfaði af miklum heilindum og fagmennsku sem þingmaður. Hann hefur hins vegar fengið skýr skilaboð frá forystu flokksins um að hans krafta sé ekki hægt að nýta í ráðherraliðinu. Við áttum gott samstarf í fjárlaganefndinni og mér finnst það virkilega slæmt að hann haldi ekki áfram,“ segir Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en hann starfaði náið með Gunnari við fjárlagagerðina í haust sem varaformaður fjárlaganefndar.