Sveinbjörn Brandsson, bæklunarskurðlæknir hef ákveðið að gefa kost á sér í 7. – 8. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, fyrir komandi Alþingiskosningar.
„Það er mitt mat að þjóðfélagið kalli eftir breytingum í stjórnmálum og að fólk vilji sjá ný, andlit og ný viðhorf sem þó eru byggð á gildunum um traust og heiðarleika,“ segir Sveinbjörn í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag.
„Að vel hugsuðu máli ákvað ég að bjóða fram krafta mína með Sjálfstæðisflokknum í komandi kosningum og ég tel reynslu mína nýtast vel í því starfi sem framundan er í uppbyggingu á efnahag þjóðarinnar og þjóðfélagsins í heild sinni. Mál sem mér er mjög hugleikið er að börn og unglingar verða mjög óörugg og líður illa á þessum óvissutímum og við þurfum að sýna þeim að þau búi í besta og öruggasta landi í heimi. Mikilvægt er að tryggja að atvinnuvegirnir geti þrifist og að fyrirtækin búi við eðlilegt starfsumhverfi. Við búum við eitt besta mennta- og heilbrigðiskerfi í veröldinni og það þarf að skoða alla möguleika á að viðhalda því hvort sem það er innan eða utan ríkiskerfisins. Ég vil sjá meiri heiðarleika og kærleika meðal fólks en þessi grunngildi virðast vera orðin aukaatriði í okkar þjóðfélagi.“
Sveinbjörn segir að einstaklingar og fyrirtæki verði að sýna meiri ábyrgð og eignarhald fyrirtækja og stjórnun verði að vera sýnilegt. „Það þarf að vera hafið yfir vafa hver á hvað og gjörðir fyrirtækjanna verða að vera sýnilegri og gegnsærri án þess að settar séu of þröngar skorður.“
Sveinbjörn er fæddur á Akranesi 1. desember 1960. Hann er kvæntur Birnu Antonsdóttur, geislafræðingi og sölu- og markaðsfulltrúa. Þau eiga einn son, Andra Þór 12 ára en fyrir á Sveinbjörn Jón Inga tölvunarfræðinema í HR og Arnar nema í efnaverkfræði í HÍ.