Valgerður Bjarnadóttir, sem tekur þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar í vor, biður um stuðning í eitt af fjórum efstu sætunum.
„Boðað er til kosninga þegar kjörtímabilið er hálfnað vegna þess að efnahagskerfið hefur hrunið af mannavöldum. Kallað er eftir breytingum á stjórnskipuninni og þá um leið starfsaðferðum í stjórnmálum. Þau sem bjóða sig fram undir merkjum jafnaðarstefnunnar leggja sjálfkrafa höfuðáherslu á velferðarkerfið og mannsæmandi öryggisnet. – Við erum öll á velferðarvaktinni,“ segir Valgerður í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í dag.
Þar segir ennfremur: „Mörg mál eru brýn. Það þarf að varða leiðina upp úr skuldafeninu og tryggja efnahagslega afkomu þjóðarinnar í framtíðinni. Verðtrygginguna þarf að aðlaga hagsmunum fólks en ekki fjármálastofnana eins og raunin er og við þurfum að ganga í Evrópusambandið. Allt þetta skiptir miklu máli.“
Valgerður segir að það sem núna skiptir mestu máli sé þó að boða til stjórnlagaþings „til þess að þjóðin geti sett sér nýja stjórnarskrá. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar breyta þurfi stjórnskipuninni. Það þarf að skilja á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins og afnema með þeim hætti ráðherraræðið sem ríkir hér á landi.“
Valgerður rifjar upp að breytingar á stjórnarskrá var helsta áherslumál Bandalags jafnaðarmanna sem hún starfaði með á árunum 1983 til 1985. „Það er sorglegt að efnahagskerfið þyrfti að hrynja til þess að þetta mikilvæga mál kæmist á dagskrá stjórnmálamanna. Margt bendir til að nú fari sem oft áður að stjórnmálamenn heiti því að beita sér fyrir þjóðþurftarmálum fyrir kosningar en gleymi þeim eftir kosningar. Komist ég á þing mun ég halda þessu máli á lofti þangað til það verður að raunveruleika. Ég mun beita mér í því máli á sama hátt og ég hef beitt mér fyrir afnámi sérstakra eftirlaunakjara þingmanna og ráðherra. Þau sem bjóða sig fram til þings eða sveitarstjórna eiga að gera það með því hugarfari að þau bjóði kjósendum þjónustu sína. Þingmenn eiga að setja lög með þjóðina í fyrsta sæti en ekki stjórnmálaflokka. Ríkisstjórn ber ábyrgð á æðstu stjórn landsins, verkefnið á að nálgast af þeirri auðmýkt sem ábyrgðinni fylgir, en ekki sigurgleði yfir að vera við völd.“
Valgerður er sviðsstjóri á innkaupa- og vörustjórnunarsviði Landspítala. „Í fimmtán ár bjó ég starfaði í Brussel m.a. á aðalskrifstofu EFTA. Þar áður var ég hjá Flugleiðum m.a. forstöðumaður hagdeildar fyrirtækisins. Ég lauk meistaraprófi í heilsuhagfræði frá Háskóla Íslands haustið 2006 og kandídatsprófi frá viðskiptadeild – þjóðhagskjarna frá sama skóla árið 1975. Ég er gift og til samans eigum við hjónin sex börn og 10 barnabörn,“ segir Valgerður.