Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segist ekki skilja hver hafi komið þeirri flugu í hausinn á Höskuldi Þórhallssyni, þingmanni Framsóknarflokksins, að skýrsla nefndar á vegum Evrópusambandsins um regluverk evrópskra seðlabanka komi seðlabankafrumvarpi ríkisstjórnarinnar eitthvað við.
Segir Össur, að Höskuldur sé lagður af stað í háskalega för og það sé illt afspurnar fyrir Framsóknarflokkinn að hann sé lagstur í vörn fyrir seðlabankastjóra.
Samkvæmt erindisbréfi nefndarinnar varða verkefni hennar ekki hæfniskröfur seðlabankastjóra eða hvort ákvarðanir eru teknar af bankastjórum eða peningamálastefnunefnd.
Málið olli miklum titringi á stjórnarheimilinu í gær og reynt var að ná samningum við forsætisnefnd alþingis um að frumvarpið yrði tekið fyrir þótt það hefði ekki verið samþykkt úr viðskiptanefnd.