Konur sitja skemur á þingi en karlar

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir.

Konur sitja að jafnaði mun skemur á þingi en karlar. Þetta kom fram í máli Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, félags - og tryggingamálaráðherra, á fundi sem Bandalag kvenna í Reykjavík, Kvenfélagasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands héldu í tilefni konudagsins um helgina.

Þar kemur fram að frá endurreisn Alþingis árið 1845 hafi 655 manns setið á Alþingi og þar af aðeins 69 konur. Þá hafa aðeins fjórar konur setið á Alþingi í 20 ár eða lengur. Ráðherra sagði í erindi sínu að ríkari fjölskylduábyrgð kvenna hefði áhrif á þátttöku þeirra í stjórnmálum, auk þess sem erfiðara væri fyrir konur að fara í gegnum prófkjör.

Ásta Ragnheiður sagði jafnframt að full ástæða væri til þess að hafa áhyggjur af því að versnandi staða heimilanna yrði til þess að konur gæfu síður kost sér í næstu kosningum. Hún benti á að áhersla á ódýrari og umfangsminni prófkjörsbaráttu hjálpaði konum að taka þátt.

Siv Friðleifsdóttir, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, sagði í erindi sínu á fundinum að hún hefði talsverðar áhyggjur af stöðu kvenna í stjórnmálum. Þó að margar konur vildu taka þátt sæktust þær ekki eftir oddvitasætum í nægilegum mæli. Í síðustu kosningum leiddu aðeins sjö konur lista á öllu landinu. Siv sagði það vera ógnvænlega stöðu og lagði áherslu á að fólk þyrfti að veita konum framgang í pólitík.

Siv Friðleifsdóttir
Siv Friðleifsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert