Helga Sigrún Harðardóttir, alþingismaður, hefur ákveðið að bjóða sig fram í Suðvesturkjördæmi og sækist eftir 1. sætinu þar Helga Sigrún var í 3. sæti á lista Framsóknarflokks í Suðurkjördæmi í síðustu kosningum og varð þingmaður eftir að Bjarni Harðarson sagði af sér. Með því að færa sig yfir í Suðvesturkjördæmi býður hún sig fram gegn Siv Friðleifsdóttur sem leitt hefði lista flokksins í því kjördæmi um árabil og gefur áfram kost á sér.
Helga Sigrún segir í tilkynningu að hafa nú að vandlega yfirlögðu ráði og fyrir hvatningu og stuðning fjölmargra framsóknarmanna í SV kjördæmi ákveðið að sækjast eftir 1. sæti á lista þeirra í kjördæminu. Byggi sú ákvörðun á eindreginni áskorun grasrótar framsóknarmanna, kalli hennar eftir nýliðun og breytingum á forystu flokksins og sé hún jafnframt í samræmi við þær miklu breytingar sem orðið hafa um land allt og einkenna lista framsóknarmanna fyrir komandi alþingiskosningar.
Helga Sigrún er 39 ára, kennari og náms- og starfsráðgjafi að mennt, með mastersgráðu í mannauðs- og samskiptastjórnun frá Oklahoma University. Þá hóf hún laganám við Háskólann í Reykjavík s.l. haust og lauk fyrstu önninni. Hún er gift Gunnlaugi Kristjánssyni forstjóra Björgunar. Til samans eigum þau tvö uppkomin börn og tvö barnabörn. Hún starfaði lengst af sem dagskrárgerðarmaður í útvarpi, við kennslu og ráðgjöf og sem verkefnastjóri, m.a. hjá Impru-nýsköpunarmiðstöð á Iðntæknistofnun (nú Nýsköpunarmiðstöð). Þar vann hún við handleiðslu frumkvöðla og verkefnastjórn Brautargengis þar sem hópar kvenna komu saman á 15 vikna námskeiðum til að skrifa viðskiptaáætlun utan um viðskiptahugmyndir sínar og fá leiðsögn um stofnun og rekstur fyrirtækja. Haustið 2005 tók hún að sér starf skrifstofustjóra þingflokks framsóknarmanna. Hún hafði gegnt því starfi í rúm 3 ár þegar hún óvænt varð þingmaður í nóvember s.l. Segir hún að jafnframt hafi sér verið treyst til setu í stjórnum fyrirtækja í opinberri eigu s.s. Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Fríhöfninni ehf.
Í tilkynningunni um framborðið segir Helga Sigrún m.a.: „Ég vil bjóða fram krafta mína til að auka lýðræði, vinna að meiri jöfnuði og ekki síst sanngjarnari leikreglum. Með þau gildi að leiðarljósi vil ég leggja mitt af mörkum við endurreisn samfélagsins. Stjórnlagaþing, þar sem stórum spurningum um uppbyggingu stjórnkerfisins er vísað til þjóðarinnar sjálfrar, er grundvallaratriði til að hér náist sátt um þær leikreglur. Íslenskt hagkerfi er miðstýrðara en víðast hvar í vestrænum heimi og bein afskipti stjórnmálaflokka af viðskipta- og atvinnulífi eru óvíða meiri. Hverfa þarf af þeirri braut. Ég vil vinna að því að hér þrífist öflugt atvinnulíf, heilbrigð þjóð og kröftugt velferðarkerfi.“