Illugi Gunnarsson alþingismaður segir í ávarpi til sjálfstæðismanna sem birtist á heimasíðu flokksins í dag að sér kólni í sálinni við að sjá ýmislegt það sem skrifað hafi verið undanfarið um sig og aðra frambjóðendur í prófkjöri flokksins í Reykjavík. „Þessu verður að linna,“ segir Illugi.
„Undanfarna daga hefur prófkjörsbaráttan verið að harðna hér í Reykjavík. Málefnaleg gagnrýni og rökræður eru nauðsyn og í slíkri umræðu eigum við öll að vera þátttakendur. En því miður er ekki allt málefnalegt sem sagt er þessa dagana. Ég hef reynt að halda mig frá því að lesa blogg og ýmislegt það sem skrifað er um mig og aðra frambjóðendur á vefnum. Það sem ég hef þó séð er nóg til þess að manni kólnar í sálinni; nafnlaust blogg og athugasemdir sem hafa engan annan tilgang en þann að meiða, særa, skemma og eyðileggja, eru daglegt brauð,“ segir í pistli Illuga.
Síðan segir þingmaðurinn: „Þessu verður að linna. Ekki mín vegna eða annarra sem hafa gefið sig í þetta allt saman. Því verður að linna vegna þess að með svona árásum og svona tali skemmum við Sjálfstæðisflokkinn og drögum úr möguleikum hans til þess að ná árangri í kosningunum í vor. Svo er annað og verra sem af þessu niðurrifi hlýst. Íslenska þjóðin þarf nú mest á von að halda, hugrekki og krafti til þess að vinna sig úr þeim vanda sem við er að fást. Þessi vandi er ekki óleysanlegur, langt í frá. En lausnin felst í því að við vinnum saman, tölum saman. Hún felst í því að við tölum kjark í hvort annað, að við þjöppum okkur um þau gildi sem við eigum sameiginleg og leysum úr þeim ágreiningi sem þarf að leysa úr. Lausnina er hvergi að finna nema hjá okkur sjálfum, í okkar eigin hyggjuviti og samstöðu.“
Illugi segir að niðurrif, neikvæðni og það, að geta aldrei unað neinum neins, dragi kraftinn úr samfélaginu. „Við getum verið ósammála um menn og málefni, en sama hvar í flokki við stöndum þá viljum við öll vinna landinu okkar heilt.“
Hann segir eðlilegt að menn takist á í prófkjöri; „það þarf að velja á milli manna og slíkt er aldrei auðvelt. Við sjálfstæðismenn eigum nú möguleika á því að sýna að við getum valið okkur forystu og um leið lagt okkar af mörkum til að styrkja og styðja þá uppbyggingu sem framundan er. Það gerum við með því að ganga fram með þeim hætti að um okkur sjálfstæðismenn sé sagt að við tökumst á heiðarlega og drengilega. Þannig vísum við veginn, þannig leggjum við gott til málanna og þannig erum við trú þeim hugsjónum og gildum sem við viljum að ráði för hjá þjóðinni,“ segir Illugi Gunnarsson.