Formenn og varaformenn kjördæmasambanda Frjálslynda flokksins í Reykjavík sögðu af sér í vikunni og gengu úr flokknum. Tryggvi Agnarsson sagði í fréttum Ríkisútvarpsins, að flokkurinn væri stjórnlaus og sé að liðast í sundur.
Tveir þingmenn flokksins af fjórum, þeir Jón Magnússon og Kristinn H. Gunnarsson, hafa sagt sig úr flokknum. Jón er genginn í Sjálfstæðisflokk og að sögn Útvarpsins ætlar Kristinn að bjóða sig fram í prófkjöri Samfylkingar í Suðvesturkjördæmi. Það yrði þá fjórði flokkurinn, sem Kristinn starfar með frá því hann var fyrst kjörinn á Alþingi 1991.
Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður flokksins, sagði hins vegar að margir hefðu gengið til liðs við flokkinn að undanförnu. Sagðist Guðjón ekki ætla að segja af sér formennsku.