Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að ef peningastefnunefnd verði gert að opinbera áhyggjur sínar eins og seðlabankafrumvarpið feli í sér eftir síðustu breytingu, geti það leitt til þess að fjármálakerfið hrynji.
Breytingin var gerð eftir að skýrsla um fjármálastofnanir, sem unnin var fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, var lögð fyrir viðskiptanefnd. Sjálfstæðismenn vildu bíða skýrslunnar sem og Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokksins en afstaða hans olli titringi á stjórnarheimilinu.
Sigurður Kári segist þó ekki telja að það hafi verið mistök að bíða eftir skýrslunni. Þetta ákvæði gangi lengra en þar sé lagt til. Þar segir að gera skuli þar til bærum stjórnvöldum viðvart en samkvæmt frumvarpinu megi allt eins gera ráð fyrir að peningastefnunefndin haldi blaðamannafund.