„Ég veit ekki hvað tekur við að lokinni þingmennsku. Það er ekkert fast í hendi þannig að nú verð ég að fara að líta í kringum mig,“ segir Árni M. Mathiesen, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og fyrrverandi fjármálaráðherra. Árni hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í næsta mánuði.
Árni staðfesti í samtali við Morgunblaðið 8. febrúar að hann sæktist áfram eftir setu á Alþingi í kosningunum 25. apríl næstkomandi en nú rúmlega hálfum mánuði síðar og eftir yfirreið um kjördæmið, hefur hann skipt um skoðun.
„Ég hef fundið glöggt að fólk vill breytingar, bæði á okkar áherslum og eins á okkar frambjóðendum. Það lá fyrir að nær allir sitjandi þingmenn sækjast eftir endurkjöri og þá er erfitt að sjá hvernig breytingum verður komið við,“ segir Árni.
Hann segir þetta enga skyndiákvörðun og síst hafi hann verið orðinn leiður á pólitík.