Davíð kallaður „bankaræningi" í hollensku blaði

Hollenska dagblaðið Volkskrant, sem er eitt stærsta blað þar í landi, birti í dag frétt undir fyrirsögninni: „Bankaræninginn" Davíð verður að víkja. Þar segir að íslenska þingið hafi þurft að beita brögðum til að koma Davíð Oddssyni úr embætti seðlabankastjóra.

Blaðið segir raunar, að í lögum, sem Alþingi samþykkti í gær um Seðlabankann hafi verið ákvæði um að seðlabankastjóri skuli vera með meistarapróf í hagfræði. Þess vegna hafi Davíð orðið að víkja því hann sé ekki með slíka gráðu. Raunar var slík krafa í upphaflega frumvarpinu en í endanlegum lagatextum er gerð krafa um meistarapróf í hagfræði eða tengdum greinum og víðtæka reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi og efnahags- og peningamálum.

Þá segir blaðið, að Davíð hafi sem forsætisráðherra og seðlabankastjóri trúað á markaðsfrelsi og því gefið markaðnum mikið svigrúm. Það hafi leitt til afar hraðs vaxtar og raunar hafi bankarnir fengið að vaxa svo hratt að það hafi orðið ríkinu um megn. Afleiðingin hafi orðið, að landið réði ekki við afleiðingar lánsfjárkreppunnar. Ísland sé nú gjaldþrota og undir stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Fréttin í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert