Flótti úr flokknum orðum aukinn

Frá síðasta landsfundi Frjálslynda flokksins.
Frá síðasta landsfundi Frjálslynda flokksins.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, segir vægast sagt mjög orðum aukið að margt fólk hafi yfirgefið flokkinn. 14 fleiri hafi skráð sig úr flokknum en í hann.

Guðjón Arnar sendi frá sér yfirlýsingu vegna viðtala við Þóru Guðmundsdóttur og Tryggva Agnarsson, stjórnarmenn kjördæmasambanda Frjálslynda flokksins í Reykjavík. Þau sögðu af sér í vikunni og gengu úr flokknum. Tryggvi Agnarsson sagði í fréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöld, að flokkurinn væri stjórnlaus og sé að liðast í sundur.

Tveir þingmenn flokksins af fjórum, þeir Jón Magnússon og Kristinn H. Gunnarsson, hafa sagt sig úr flokknum. Jón er genginn í Sjálfstæðisflokk og Kristinn aftur genginn í Framsóknarflokkinn.

Í yfirlýsingunni segir Guðjón Arnar Kristjánsson að heildar félagatala í Frjálslynda flokknum sé sú sama og verið hefur síðastliðna mánuði, eða um 1.650 félagsmenn.

„Mismunartala þeirra sem gengið hafa í og úr flokknum eru 14 manns, það er 14 fleiri hafa skráð sig úr flokknum en í hann. Það er því vægt sagt mjög orðum aukið að margt fólk yfirgefi Frjálslynda flokkinn,“ segir Guðjón Arnar Kristjánsson í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka