Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, segir vægast sagt mjög orðum aukið að margt fólk hafi yfirgefið flokkinn. 14 fleiri hafi skráð sig úr flokknum en í hann.
Guðjón Arnar sendi frá sér yfirlýsingu vegna viðtala við Þóru Guðmundsdóttur og Tryggva Agnarsson, stjórnarmenn kjördæmasambanda Frjálslynda flokksins í Reykjavík. Þau sögðu af sér í vikunni og gengu úr flokknum. Tryggvi Agnarsson sagði í fréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöld, að flokkurinn væri stjórnlaus og sé að liðast í sundur.
Tveir þingmenn flokksins af fjórum, þeir Jón Magnússon og Kristinn H. Gunnarsson, hafa sagt sig úr flokknum. Jón er genginn í Sjálfstæðisflokk og Kristinn aftur genginn í Framsóknarflokkinn.
Í yfirlýsingunni segir Guðjón Arnar Kristjánsson að heildar félagatala í Frjálslynda flokknum sé sú sama og verið hefur síðastliðna mánuði, eða um 1.650 félagsmenn.
„Mismunartala þeirra sem gengið hafa í og úr flokknum eru 14 manns, það er 14 fleiri hafa skráð sig úr flokknum en í hann. Það er því vægt sagt mjög orðum aukið að margt fólk yfirgefi Frjálslynda flokkinn,“ segir Guðjón Arnar Kristjánsson í yfirlýsingunni.