Samfylking er aftur orðinn stærsti flokkurinn, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. 30,7% segjast myndu kjósa flokkinn og fengi flokkurinn því 20 þingmenn kjörna, tveimur fleiri en hann hefur nú. Fylgi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs mælist 24,4% og yrðu þingmenn flokksins samkvæmt því 16, sjö fleiri en hann hefur nú.
Sjálfstæðisflokkur bætir við sig fylgi frá síðustu könnun blaðsins og segjast 28,2% styðja flokkinn. Þingmenn flokksins yrðu 19 samkvæmt þessu en hann hefur nú 26 þingmenn.
Fylgi Framsóknarflokksins mælist nú 12,4%. Fengi flokkurinn 8 þingmenn samkvæmt því, einum fleiri en í síðustu kosningum.
Fylgi Frjálslynda flokkurinn mælist nú 2,2% og hann fengi því ekki þingmann kjörinn en fékk 4 þingmenn í síðustu kosningum.
55,4% segjast nú styðja ríkisstjórn Samfylkingar og VG.
Hringt var í 800 manns í gær og skiptust svarendur jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu. Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til kosninga nú? Ef svarendur voru óákveðnir voru þeir spurðir hvaða lista væri líklegast að þeir myndu kjósa. Þeir sem voru enn óákveðnir voru þá spurðir hvort væri líklegra að þeir kysu Sjálfstæðisflokk eða einhvern annan flokk. Eftir fyrstu spurninguna var svarhlutfallið 52,9 prósent en 68,8 prósent eftir þriðju spurninguna.
Einnig var spurt: Styður þú ríkisstjórnina? og var svarhlutfall 87,8 prósent.