Þórunn stefnir að forystusæti í Kraganum

Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, sækist eftir endurkjöri til Alþingis. Hún stefnir að forystusæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi í prófkjörinu sem fram fer 12. til 14. mars næstkomandi. Biður hún um stuðning í 1. til 2. sæti á framboðslistanum.
 
Í tilkynningu um framboðið segir Þórunn m.a.: „Endurreisn samfélags og ný gildi Íslendinga bíður stærsta og mikilvægasta verkefni frá stofnun lýðveldisins, endurreisn samfélags á grunni jafnaðarstefnunnar. Sú endurreisn verður að byggja á jafnrétti, stjórnfestu og heiðarlegum vinnubrögðum. Þjóðin þarf að ná samstöðu um ný gildi, og á grundvelli þeirra þarf að setja íslenska lýðveldinu nýja stjórnarskrá á stjórnlagaþingi. Endurreisn samfélagsins krefst þess einnig að konur séu kallaðar til áhrifa og valda til jafns á við karla.“
 
Einnig segir: „Forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar, að loknum alþingiskosningum, er að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Aðildarsamninginn ber að leggja undir þjóðaratkvæði. Ísland á samleið með ríkjum Evrópu. Hagsmunum okkar á sviði efnahags, viðskipta, mennta og menningarmála er best borgið í samvinnu fullvalda ríkja innan Evrópusambandsins. Einangrun er ekki kostur. Náin samvinna við önnur ríki er forsenda þess að öflugt og skapandi atvinnu- og efnahagslíf  þróist og dafni hér á landi til langrar framtíðar.“
 


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert