Í undanfara efnahagshrunsins tjáðu stjórnendur Seðlabanka Íslands sig oft um ástand bankanna, bæði innan stjórnkerfisins og út á við. Þar var talinn reginmunur á því sem mætti segja á bak við luktar dyr, við áhrifafólk, og því sem yrði sagt opinberlega. Svo mikill var munurinn að eftir á er varla hægt að sjá að þar tali fulltrúar sömu stofnunar, frá einni tilvitnun til annarrar.
Deilt hefur verið um það hverjir fengu viðvaranir og hverjir ekki. Hverjir höfðust ekki að sem skyldi, miðað við upplýsingarnar sem þeir höfðu? Hverjir bera á endanum pólitíska ábyrgð?
Krísudeildin í ríkisstjórninni
Ráðherrar í ríkisstjórn bankahrunsins sinntu hver sínu málefnasviði og báru ábyrgð á því. Málefnasviðin tengdust efnahagsmálum mismikið en fyrst ber að nefna forsætisráðuneyti Geirs Haarde, sem fór með efnahagsmál. Þá fjármálaráðuneyti Árna Mathiesen, sem fór með ríkisfjármál og viðskiptaráðuneyti Björgvins G. Sigurðssonar, sem fór með málefni banka. Þar sem stjórnarflokkar bera pólitíska ábyrgð á verkum ríkisstjórnar var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, leiðtogi Samfylkingarinnar, í hópi krísuráðherranna. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra fyllti það skarð í veikindaleyfi hennar og sýndi áhrifamátt sinn innan Samfylkingarinnar þannig. Efnahagsmálin stóðu öðrum ráðherrum fjær, nema ef til vill Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, varaformanni Sjálfstæðisflokksins og staðgengli Geirs, sem þurfti þó lítið að láta til sín taka vegna bankahrunsins sjálfs. Að minnsta kosti fimm ráðherrar gætu sem sagt talist til efnahagsdeildarinnar í ríkisstjórn, eða krísudeildarinnar.
Björgvin utangátta
Það liggur fyrir að bankamálaráðherrann Björgvin var ekki hafður með í ráðum þegar erfið staða banka var rædd og svartar skýrslur kynntar. Hann hitti formann bankastjórnar Seðlabankans ekki í heilt ár fyrir hrunið. Davíð tók þó fram, í ræðu hjá Viðskiptaráði í nóvember, að forsvarsmenn Fjármálaeftirlitsins, undirmenn Björgvins, hefðu verið hafðir með í ráðum. Hann hefur því verið ansi utangátta ef hin raunverulega staða fór fram hjá honum, eins og bloggfærsla hans frá því í ágúst gaf til kynna. Þar mærði hann bankana og styrk þeirra. Ráðherrann hefur þó axlað sína ábyrgð og sagt af sér.
Össur út undan
Össur var heldur ekki hafður með, eins og fram kom í tilkynningu frá bankastjórn Seðlabankans í vikunni. Hann var þar sagður þurfa að meta sjálfur hvers vegna Geir, Ingibjörg og Árni hefðu ekki kynnt honum efni krísufundanna fyrir hrunið, sem voru sex talsins.
Þau þrjú sátu því þessa fundi en ekki aðrir ráðherrar. Þeir Geir og Árni hafa tilkynnt að þeir bjóði sig ekki fram til Alþingis nú í vor. Krafan um afsögn þeirra hefur verið hávær í vetur, en þeir hafa sagt að rannsóknarnefnd Alþingis muni leiða ábyrgð þeirra í ljós. Árni hefur nú svarað kallinu um breytingar með því að bjóða sig ekki fram til þings, en Geir hefur látið af stjórnmálaþátttöku vegna veikinda.
Úr hópi þremenninganna er aðeins óvissa um framhaldið hjá Ingibjörgu Sólrúnu. Framboðsfrestur rennur út á hádegi í dag.