Skýr vinstrisveifla

Stjórnarflokkarnir tveir mælast nú samtals með tæplega 56% fylgi í fylgiskönnun Capacent Gallup sem birt var í gær, 37 þingmenn og öruggan þingmeirihluta ef þetta yrði útkoma kosninga. „Þetta er merki um mikla vinstrisveiflu. Hún getur verið ávísun á áframhald stjórnarsamstarfsins,“ segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Þessi mæling á fylgi flokkanna staðfestir raunar skýra vinstrisveiflu meðal kjósenda sem komið hefur í ljós í könnunum allt frá því í október.

Sigur fyrir Jóhönnu

Að mati Gunnars Helga er mjög athyglisvert við þessa útkomu, að þrátt fyrir að segja megi að einskonar bylting hafi átt sér stað í þjóðfélaginu vegna efnahagskreppunnar, blasir enn við gamalkunnugt landslag flokkakerfisins. Yfir 90% þeirra sem gefa upp afstöðu segjast styðja einhvern flokkanna fjögurra, Framsókn, VG, Sjálfstæðisflokk eða Samfylkingu.

Nú virðist Sjálfstæðisflokkurinn vera að braggast eftir mikið fylgishrun sl. haust og fram eftir vetri. Hann mælist nú með rúm 26%. ,,Ef hann kæmist yfir 30% mætti líta á það sem varnarsigur en hann vantar þó enn töluvert upp á það,“ segir Gunnar Helgi.

Samfylkingin er hástökkvarinn um þessar mundir. Bætir við sig nær tíu prósentustigum frá í janúar og mælist með 31,1%. Fæstir draga í efa að vinsældir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra eigi stóran þátt í góðri útkomu Samfylkingarinnar. Þetta eru mikil umskipti því segja má að fyrr í vetur hafi kjósendur flokksins tekið til fótanna og var hún komin niður í 17-19% stuðning í janúar.

„Þetta sýnir að þegar Samfylkingin fór úr stjórnarsamstarfinu var hún um leið í aðgerð til bjargar sjálfri sér pólitískt, og átti kannski engra annarra kosta völ. Sú aðgerð virðist hafa heppnast. Samfylkingin getur vel unað við þessa niðurstöðu og auðvitað er þetta ákveðinn sigur fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur,“ segir Gunnar Helgi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð tvöfaldaði þingmannatölu sína í könnunum í haust og fylgisaukning flokksins fór um tíma yfir 30% undir lok ársins. Þá lá straumur kjósenda frá Samfylkingu til VG. Nú virðist hins vegar blasa við að þetta fylgi sé að einhverju leyti að skila sér til baka til Samfylkingarinnar. Við stjórnarskiptin kom fljótlega í ljós að fylgi VG dalaði nokkuð. Flokkurinn mælist nú með 24,6% og hefur lítið eitt bætt við sig frá seinustu könnun.

Gunnar Helgi segir þetta þó alveg prýðilega útkomu fyrir VG. Framsóknarflokkurinn er aðeins á niðurleið eftir uppsveiflu í kjölfar forystuskiptanna í janúar og mælist nú með 12,8%. Og Frjálslyndi flokkurinnn fengi engan mann kjörinn á þing ef litið er á 2,9% fylgi hans nú.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka