Talsmenn Saga Capital fjárfestingarbanka, segja að bankinn sé ekki og hafi aldrei verið til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Saga Capital sendi frá sér yfirlýsingu vegna framboðstilkynningar Daggar Pálsdóttur, hæstaréttarlögmanns, sem birtist á mbl.is í gær. Dögg og Saga Capital hafa átt í málaferlum vegna kaupa fyrirtækis Daggar á stofnfjárhlutum í SPRON.
Athugasemd Saga Capital vegna ummæla Daggar Pálsdóttur
Í gær birtist á vefsíðu mbl.is viðtal við Dögg Pálsdóttur, hæstaréttarlögmann, vegna framboðs hennar í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Þar segist hún hafa verið tvístígandi um framboð vegna málaferla, sem hún standi í gagnvart fjármálafyrirtæki hér á landi.
Orðrétt er haft eftir henni: „Eftir að ríkissaksóknari fól efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra að rannsaka hugsanleg fjársvik af hálfu þeirra sem ég á í höggi við tel ég ljósi hafa verið varpað á málið, sem ruddi úr vegi hindrunum fyrir framboði mínu.“
Af þessu tilefni vill Saga Capital Fjárfestingarbanki taka fram að bankinn er ekki og hefur aldrei verið til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, eins og lögmaðurinn dróttar að í viðtalinu. Málaferli Saga Capital og Daggar Pálsdóttur vegna eignarhaldsfélags í hennar eigu er einkamál og er niðurstöðu héraðsdóms að vænta innan nokkurra vikna.