Það er líklega óhætt að fullyrða að flestir leggi þann skilning í orðið þingrof að það feli í sér að þegar tilkynnt hafi verið um þingrof sé þing þar með rofið, að þingið haldi ekki áfram störfum sínum. Þetta er líka sá skilningur sem kemur fram á orðinu þingrof í íslenskri orðabók. Það kom því líklega flestum á óvart þegar Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ræddi þann möguleika á mánudag að halda áfram þingstörfum eftir þingrof.
Á vissan hátt má því segja að eftir stjórnarskrárbreytingarnar árið 1991 sé orðið þingrof villandi því þó forsætisráðherra láti rjúfa þing þýðir það ekki sjálfkrafa að hlé eða rof verði á þingstörfum.
Til þess þarf þingið að samþykkja að fresta störfum sínum. Meirihluti þingmanna ræður þess vegna hversu lengi þingið starfar. Meirihluti þingmanna getur ákveðið að gera hlé á störfum sínum hvenær sem honum sýnist svo.
Mjög er deilt um hvort það sé verjandi að þingstörf haldi áfram eftir að búið er að tilkynna um þingrof.
Eiríkur Tómasson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, segir að í stjórnarskránni séu engin ákvæði sem banni að þingstörfum sé haldið áfram allt fram á kjördag. Á hinn bóginn hljóti að þurfa að gefa þingmönnum, sem margir bjóði sig fram að nýju, svigrúm til að taka þátt í kosningabaráttunni. „Það samrýmist ekki lýðræðislegum leikreglum að veita mönnum ekki hæfilegt svigrúm til þess,“ segir hann.
Forsætisráðherra hefur heimild til þingrofs en Eiríkur segir að til að hún öðlist gildi þurfi undirskrift forseta. Eiríkur telur að ef forseti metur það svo, eftir könnun, að ekki sé meirihluti á þingi fyrir þingrofinu, þá sé honum ekki skylt að skrifa undir þingrofsúrskurðinn og þar með öðlist hann ekki gildi. Þegar undirskriftin sé fengin sé endanlega búið að ákveða þingrof. Meirihluti þingsins geti ekki afturkallað þingrof, hafi forseti staðfest það, heldur verði kosningar að fara fram.
Hversu lengi getur Alþingi starfað eftir að tilkynnt hefur verið um þingrof?
Um það segir í sjálfu sér ekkert í lögum. Á reglulegu kosningaári er venjan er sú að þingi er frestað upp úr miðjum mars og kosningar eru haldnar annan laugardag í maí. Kosningar mega í síðasta lagi fara fram 45 dögum eftir að tilkynnt er um þingrof. Ef kjósa á til þings 25. apríl er í fyrsta lagi hægt að tilkynna þingrof 12. mars.
Hvers vegna þykir sumum slæmt að láta þingið starfa lengur?
Meðal þess sem bent hefur verið á er að ef þingið heldur áfram störfum eftir að tilkynnt hefur verið um þingrof dregur það úr möguleikum þingmanna til að taka þátt í kosningabaráttunni. Slíkt kæmi væntanlega verst við þingmenn af landsbyggðinni.
Raunar má einnig segja að annir á Alþingi undanfarið geri þingmönnum erfitt fyrir að taka þátt í prófkjörsbaráttu. Undanfarin ár hafa prófkjör jafnan verið haldin þegar lítið er um að vera á Alþingi en sú er alls ekki raunin nú.