Vilja gegnsætt réttlæti

Forsvarsmenn Borgarahreyfingarinnar kynna framboðið.
Forsvarsmenn Borgarahreyfingarinnar kynna framboðið. mbl.is/Ómar

„Efnahagshrunið í haust og vanhæfni stjórnvalda til að taka á því, varð til þess að leiða saman þann ólíka hóp sem stendur að Borgarahreyfingunni,“ sagði Herbert Sveinbjörnsson, formaður nýstofnaðrar Borgarahreyfingarinnar á kynningarfundi í dag. Hreyfingin hefur listabókstafinn O.

„Við erum valkostur fyrir þá sem eru orðnir þreyttir á sömu frösunum, sömu andlitunum, sömu lausnunum og vilja gegnsætt réttlæti,“ sagði Herbert að auki.

Í stefnuskrá hreyfingarinnar segir að grípa verði til neyðarráðstafana í þágu heimila og fyrirtækja, landsmenn skuli semja sína eigin stjórnarskrá, fram fari trúverðug rannsókn fyrir opnum tjöldum undir stjórn og á ábyrgð óháðra erlendra sérfræðinga á íslenska efnahagshruninu en á meðan henni stæði yrðu eignir grunaðra auðmanna frystar. Þá segir einnig að lögfesta verði fagleg, gegnsæ og réttláta stjórnsýslu.

Þær lýðræðisumbætur sem flokkurinn vill ná fram strax eru persónukjör til Alþingis og afnema 5% þröskuldinn, að þjóðaratkvæðagreiðslur fari fram um mál sem varði þjóðarhag óski tiltekinn minnihluti þjóðarinnar þess. Þá vill flokkurinn að stjórnlagaþing fólksins verði sett í haust en valið verði inn á það með slembiúrtaki. Síðast en ekki síst vill Borgarahreyfingin að ný framboð fái sama tíma í fjölmiðlum og sama stuðning og aðrir stjórnmálaflokkar.

Borgarahreyfingin mun verða lögð niður og hætta störfum þegar þessum markmiðum hefur verið náð eða augljóst er að þeim verður ekki náð.

Hreyfingin mun bjóða fram í öllum kjördæmum en tilskildum fjölda frambjóðenda hefur ekki verið náð. Hvað varðar afstöðu til inngöngu í Evrópusambandið segir Herbert æskilegt að fara í samningaviðræður og í kjölfarið leggja málið í hendur þjóðarinnar.

Nái hreyfingin inn á þing segist hún útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn en að sögn Baldvins Jónssonar ritara þarf Sjálfstæðisflokkurinn „að taka sér pásu.“ Vilji hreyfingarinnar sé að mynda félagshyggjustjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka