Fréttaskýring: Slagurinn í Reykjavík

Frá Reykjavík, horft yfir Tjörnina.
Frá Reykjavík, horft yfir Tjörnina.

Stjórnmálaflokkarnir sem efna til prófkjörs eða forvals til að skipa á framboðslista sína, hafa þann háttinn á að láta þau ná til beggja Reykjavíkurkjördæmanna. Í þessari síðustu yfirreið um kjördæmi landsins er rýnt í stöðu mála og í þessu tilfelli er Framsókn höfð með þótt þar sé um uppstillingu að ræða. Niðurstaðan hjá einstökum flokkum er síðan fær inn þegar hún liggur fyrir.

Framsókn

Flokkurinn varð að fresta aukakjördæmaþingi sínu sem fram átti að fara 28. febrúar af óviðráðanlegum orsökum, að sagt var, en það verður haldið á morgun, laugardag, og þar tekin fyrir tillaga forvalsnefndar að framboðslista flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum. 

Flokkurinn fékk engan mann kjörinn í hvorugu Reykjavíkurkjördæmanna 2007 og var þó formaður flokksins, Jón Sigurðsson, efstur á lista í öðru þeirra en dugði ekki til. B-listinn fékk 5,9% atkvæða í suðurkjördæminu en 6,2% í norðurkjördæminu 2007 en í skoðanakönnun Capacent Gallup sem gerð var 16.-24. febrúar og brotin var niður á einstök kjördæmi mældist Framsókn með 10,5 í því syðra en 7,5% í því nyrðra. Á landsvísu hefur flokkurinn heldur verið að gefa eftir, mældist með 12,8% fylgi í framangreindri könnun, með 12,6% í þeirri sem birtist sl. fimmtudag og í nýbirtri könnun MMR fellur fylgið úr 14,9% í febrúar í 10% núna.

Þessi þróun má vera framsóknarmönnum áhyggjuefni því að nýi formaðurinn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, verður efstur í öðru hvoru kjördæminu og eins og sýndi sig í kosningunum 2007 í tilfelli Jóns Sigurðssonar er það úrslitaatriði fyrir flokkinn að formaðurinn nái þingsæti.

Laugardaginn 7. mars sl.  var valið á framboðslista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður vegna alþingiskosninganna þann 25. apríl nk. á aukakjördæmaþingi á Hótel Hilton.


Eftirfarandi munu skipa efstu fjögur sæti framboðslista framsóknarmanna í Reykjavík:

Reykjavík norður


1. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, 33 ára, skipulagshagfræðingur
2. Ásta Rut Jónasdóttir, 35 ára, stjórnmálafræðingur
3. Þórir Ingþórsson, 31 árs, viðskiptafræðingur
3. Fanný Gunnarsdottir, 51 árs, kennari og starfandi námsráðgjafi

Reykjavík suður


1. Vigdís Hauksdóttir, 43 ára, lögfræðingur
2. Einar Skúlason, 37 ára, stjórnmálafræðingur og MBA
3. Guðrún Valdimarsdóttir, 36 ára, hagfræðingur
4. Salvör Gissurardóttir, 55 ára, viðskiptafræðingur

Listinn í heild sinni verður birtur á næstu dögum.

Samfylking

Flokkurinn fékk 8 þingmenn í báðum Reykjavíkurkjördæmunum í kosningunum 2007. Í Reykjavík suður fékk flokkurinn 29% atkvæða og 3 þingmenn, Ingibjörgu Sólrúnu, Ágúst Ólaf Ágústsson og Ástu R. Jóhannesdóttur. Í Reykjavík norður fékk flokkurinn 29,2% og 5 þingmenn, Össur Skarphéðinsson, Jóhönnu Sigurðardóttur, Helga Hjörvar, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur og Ellert B. Schram. Fyrir liggur að af þingmönnunum átta munu tveir hætta, þeir Ágúst Ólafur og Ellert B. Schram sem fór nokkuð óvænt á þing sem uppbótamaður.

Í skoðanakönnun Capacent Gallup frá því seinni hluta febrúar sl. þar sem fylgi við flokka var mælt í einstökum kjördæmum var Samfylkingin með 33,7% fylgi  í suðurkjördæminu og 34,1% í norðurkjördæminu. Síðan hefur fylgið dalað nokkur því að í skoðanakönnun Capacent Gallup sem birtist sl. fimmtudag mældist flokkurinn með 27,6% á landsvísu en var með 31,1% í könnuninni seinnihluta febrúar. Í nýbirtri könnun MMR er að vísu önnur þróun í gangi því að þar eykur flokkurinn fylgi sitt úr 24,1% í 30,5% og flokkurinn mælist þar stærri en Sjálfstæðisflokkur

Með því að allir þingmenn flokksins nema tveir skuli gefa kost á sér áfram virðist ekki mikið svigrúm til einhverrar endurnýjunar á listanum að ráði - staðreyndin er sú að þingmenn eru fastir fyrir þegar komið er í prófkjörsslag sem þennan og þeim ekki auðveldlega velt úr sessi. Innan úr flokknum má einnig greina kurr út af því að forustan, Jóhanna, Ingibjörg og Össur, sé nánast búin að stilla sér upp í 3 efstu sætin, og í bloggheimum má lesa samsæriskenningar um að ætlunin sé að stilla varaformannsframbjóðandanum Degi B. Eggertssyni upp  á listanum, þá væntanlega í níunda sæti - í eins konar baráttusæti. Ekki skal þetta selt dýrar en það er keypt.

Margir munu fylgjast spenntir með því hvernig gamla flokksforingja Alþýðuflokksins, Jóni Baldvin Hannibalssyni, vegnar í netkosningunni, og sömuleiðis Valgerði Bjarnadóttur sem banaði eftirlaunalögum stjórnmálamanna svo sem frægt er. Af  öðrum frambjóðendum sem gefa má gaum er Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sem hefur áreiðanlega unnið sér inn prik meðal samherja sinna þegar hún sagði sig úr Seðlabankastjórninni, Dofri Hermannsson sem hefur látið til sína taka í bloggheimum, Skúli Helgason, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar þar til nýlega að hann ákvað að bregða sér í prófkjörið og Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Ungra Jafnaðarmanna. Einnig getur orðið fróðlegt að sjá hvað sjónvarpsframinn dugir Sirrý, Sigríði Arnardóttur.

Síðan hefur það gerst að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur ákveðið að draga sig út úr stjórnmálum - að sinni að minnsta kosti -  og hættir sem formaður flokksins og tekur ekki þátt í prófkjörinu sem er netkosning og mun standa yfir frá 9.-14. mars um 8 efstu sætin.

Niðurstaðan liggur nú fyrir:

3.543 greiddu atkvæði. Á kjörskrá voru 7.743. Kjörsókn var 45,8%.

1.   sæti: Jóhanna Sigurðardóttir, 2.766 atkvæði í fyrsta sæti
2.   sæti: Össur Skarphéðinsson, 1.182 atkvæði í fyrsta til annað sæti.
3.   sæti: Helgi Hjörvar, 822 atkvæði í fyrsta til þriðja sæti.
4.   sæti: Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, 1.104 atkvæði í fyrsta til fjórða sæti.
5.   sæti: Skúli Helgason, 1.277 atkvæði í fyrsta til fimmta sæti.
6.   sæti: Valgerður Bjarnadóttir, 1.448 atkvæði í fyrsta til sjötta sæti.
7.   sæti: Steinunn Valdís Óskarsdóttir, 1.602 atkvæði í fyrsta til sjöunda sæti.
8.   sæti: Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, 1605 atkvæði í fyrsta til áttunda sæti.
9.   sæti: Mörður Árnason, 1.474 atkvæði í fyrsta til níunda sæti.
10. sæti: Anna Pála Sverrisdóttir, 1.352 atkvæði í fyrsta til tíunda sæti.
11. sæti: Dofri Hermannsson, 1.268 atkvæði í fyrsta til ellefta sæti.
12. sæti: Sigríður Arnardóttir, 964 atkvæði í fyrsta til tólfta sæti.

Sjálfstæðisflokkur

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 9 þingmenn kjörna í kosningunum 2007, 5 í suðurkjördæminu en 4 í því nyrðra. Nú liggur fyrir að tveir þingmenn hverfa af þingi, flokksformaðurinn Geir H. Haarde, og Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, úr suðurkjördæminu en Guðfinna Bjarnadóttir úr því nyrðra. Það þykir nokkuð óvænt því að hún kom fyrst inn á þing 2007 og markaði sér nokkra sérstöðu sem eindregnasti stuðningsmaður við Evrópusambandsaðild innan þingflokksins.

Flokkurinn hefur eins og vænta má orðið fyrir miklu fylgistapi í kjölfar bankahrunsins. D-listinn fékk 39,2% í suðurkjördæmi 2007 og 36,4% í því nyrðra en mældist nú seinnihluta febrúar með 26,2% í syðra kjördæminu en 25,4% í því nyrðra. Þá var hann með 26,2% fylgi á landsvísu á móti 31,1% Samfylkingar en í könnuninni sl. fimmtudag var hann kominn í 29% og yfir Samfylkingu þannig að samkvæmt því er flokkurinn eitthvað að rétta úr kútnum. Að vísu er Samfylkingin enn stærri í nýbirtri könnun MMR en þar er Sjálfstæðisflokkur með 29,3%.

Nokkuð ljóst er að baráttan um efsta sætið mun standa milli Illuga Gunnarssonar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, og hefur Illugi vinninginn ef marka má skoðanakönnun sem stuðningsmenn Illuga létu gera ekki alls fyrir löngu. Guðlaugur er hins vegar annálaður baráttumaður þegar út í kosningaslaginn er komið og nokkuð ljóst er að hvernig svo sem baráttan þeirra á milli fer muni þeir leiða hvor sinn listann í Reykjavíkurkjördæmunum.

Elínóra Inga Sigurðardóttir, forsvarsmaður íslenskra hugvitsmanna, býður sig reyndar fram í 1.-4. sæti og sömuleiðis verkfræðingurinn Loftur Altice Þorsteinsson, og Sigríður Ásthildur Andersen nefnir eitt af fjórum efstu sætunum.

Athyglisvert má telja að tveir „aðkomuþingmenn“ blanda sér í baráttuna í Reykjavík. Ólöf Nordal flytur sig úr Norðausturkjördæmi og tekur slaginn á sínum gömlu heimaslóðum, býður sig fram í 2.-3. sæti, og Jón Magnússon er kominn til liðs við Sjálfstæðisflokkinn á ný eftir viðdvöl í Frjálslynda flokknum. Hann hefur ekki tiltekið sérstakt sæti að öðru leyti en því að hann vilji vera í forystusæti, sem væntanlega þýðir öruggt þingsæti.

2. sætið nefnir einnig Pétur Blöndal og Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi, Sigurður Kári Kristjánsson nefnir 2.-3. sætið, Dögg Pálsdóttir 2.-4. sæti, Ásta Möller vill 3. sætið og Birgir Ármannsson nefnir 3.-4. sæti, sem og Guðmundur Kjartansson. Gréta Ingþórsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri þingflokksins og nú síðast aðstoðarmaður Geir H. Haarde, tiltekur 4. sætið og einnig Guðrún Inga Ingólfsdóttir, hagfræðingur. Þá er ónefndur fulltrúi ungliðahreyfingar flokksins, Þórlindur Kjartansson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna til skamms tíma en sú hreyfing hefur gjarnan reynst fulltrúum sínum í fyrri prófkjörum vel.

Það er því mikil eftirspurn eftir næstefstu sætunum - þeim frá 2. upp í 4. sæti. 

Lokatölur í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík urðu síðan sem hér segir. Alls voru 7.492 atkvæði gild í prófkjörinu af þeim 7.855 atkvæðum sem greidd voru. Alls voru 334 atkvæði ógild og 29 auð.

Röðun efstu frambjóðenda helst óbreytt frá því sem hefur verið í fyrri tölum kvöldsins. Illugi Gunnarsson þingmaður leiðir listann og fékk alls 4232 atkvæði í efsta sætið. Guðlaugur Þór Þórðarson hafnar í öðru sæti og Pétur Blöndal í því þriðja.

Röðun efstu frambjóðenda breyttist ekki frá því í síðustu tölum en Erla Ósk Ásgeirsdóttir skaust upp í áttunda sætið og Þórlindur Kjartansson hafnaði í því níunda.

Niðurstaðan í prófkjörinu fyrir 12 efstu sætin er því sem hér segir:

  1. Illugi Gunnarsson
  2. Guðlaugur Þór Þórðarson
  3. Pétur H. Blöndal
  4. Ólöf Nordal
  5. Sigurður Kári Kristjánsson
  6. Birgir Ármannsson
  7. Ásta Möller
  8. Erla Ósk Ásgeirsdóttir
  9. Þórlindur Kjartansson
  10. Sigríður Andersen
  11. Jórunn Frímannsdóttir
  12. Gréta Ingþórsdóttir

Vinstrigræn

VG fékk 4 þingmenn í kosningunum 2007, jafnmarga í hvoru kjördæmanna - Kolbrúnu Halldórsdóttir, umhverfisráðherra, og Álfheiði Ingadóttur í því syðra en Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, og Árna Þór Sigurðsson í því nyrðra. Öll eru þau í framboði nú.

Flokksmenn geta gert sér vonir um að þingmönnum fjölgi í komandi kosningunum. Flokkurinn fékk  14,4% atkvæða í suðurkjördæminu og 16,9% í norðurkjördæminu 2007 en í skoðanakönnun Capacent Gallup sem hér hefur verið vitnað til, mældist flokkurinn með 27,2% fylgi í því syðra en 26,6% í því nyrðra. Og flokkurinn hefur heldur verið að sækja í sig veðrið - var með 24,6% á landsvísu í könnuninni seinnipart febrúar en var komin í 25,9% í könnuninni sem birtist sl. fimmtudag en sú er ekki brotin niður á einstök kjördæmi eins og sú fyrri. Í skoðanakönnun MMR frá í dag er myndin aðeins önnur - fylgið fer úr 23,4% í 22,7 miðað við landið í heild.

Hætt er við að einhver núverandi þingmanna geti fallið útbyrðis, takist ekki að auka þingmannafjöldann því að nú er komin til skjalanna í forvalinu Svandís Svavarsdóttir, hinn öflugi borgarfulltrúi VG í Reykjavík, sem býður sig fram í 1. sætið eitt og sér líkt og Katrín Jakobsdóttir og ljóst þykir að hún muni skora hátt.  Álfheiður býður sig fram 1.-2 sætið, en Árni Þór í 2. sætið. Auk framangreindra býður fyrrum þingkona Kvennalistans, Anna Ólafsdóttir Björnsson, sig fram í 1.-3. sæti, svo og Paul Nikolov, fyrsti varaþingmaður flokksins í Reykjavíkurkjördæmi-norður, og Þorvaldur Þorvaldsson, byggingaiðnfræðingur, en Arnór Pétursson, fyrrverandi formaður Sjálfsbjargar, býður sig fram í 1.-4. sæti.

Ari Matthíasson, leikari, og Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur, tiltaka einungis 2. sætið en 6 aðrir frambjóðendur nefna 2. sætið og hin næstu þar fyrir ofan.

Ljóst mátti vera að þarna yrði snarpur slagur en forvalið var haldið  laugardaginn 7. mars ogog nú liggja úrsliitin fyrir:

Alls kusu 1101 félagi í fimm efstu sætin í tveim kjördæmum. Atkvæði skiptust þannig:

 

  • Katrín Jakobsdóttir, 856 atkvæði í 1. sæti
  • Svandís Svavarsdóttir, 616 atkvæði í 1. sæti
  • Lilja Mósesdóttir, 480 atkvæði í 2. sæti
  • Árni Þór Sigurðsson, 342 atkvæði í 2. sæti
  • Álfheiður Ingadóttir, 479 atkvæði í 3. sæti
  • Kolbrún Halldórsdóttir, 446 atkvæði í 3. sæti
  • Ari Matthíasson, 467 atkvæði í 4. sæti
  • Auður Lilja Erlingsdóttir, 376 atkvæði í 4. sæti
  • Davíð Stefánsson, 474 atkvæði í 5. sæti
  • Steinunn Þóra Árnadóttir, 447 atkvæði í 5. sæti


Suðvesturland

Norðvesturland

Norðausturland

Suðurland

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert