Úrslit eru ljós í netprófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi 5.–7. mars en þetta er í fyrsta skipti sem prófkjör fer fram rafrænt. Kristján Möller samgönguráðherra er sigurvegari prófkjörsins og mun því skipa fyrsta sæti lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi fyrir næstu kosningar. Sigmundur Ernir Rúnarsson, fyrrverandi fjölmiðlamaður, náði einnig takmarki sínu, 2. sæti listans.
Sú breyting verður því á þingliði Samfylkingarinnar í kjördæminu eftir kosningar að Einar Már Sigurðarson, sem verið hefur þingmaður fyrir kjördæmið, lætur af þingmennsku fyrir kjördæmið, en hann stefndi á 2. sætið og laut í lægra haldi fyrir Sigmundi Erni.
Alls kusu 2.574 manns í prófkjörinu. Kosningin er bindandi fyrir átta efstu sætin. Þau raðast þannig:
1. Kristján L. Möller 1173 atkvæði
2. Sigmundur Ernir Rúnarsson 917 atkvæði
3. Jónína Rós Guðmundsdóttir 844 atkvæði
4. Logi Már Einarsson 737 atkvæði
5. Helena Þ. Karlsdóttir 942 atkvæði
6. Örlygur Hnefill Jónsson 1138 atkvæði
7. Herdís Björk Brynjarsdóttir 1174 atkvæði
8. Stefanía G. Kristinsdóttir 1245 atkvæði
Jónína Rós var flutt upp í þriðja sæti vegna kynjakvóta.