Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins mun leiða flokkinn í Reykjavíkurkjördæmi norður í Alþingiskosningunum í vor og Vigdís Hauksdóttir, lögfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands, verður í 1. sæti á lista í Reykjavíkurkjördæmi suður. Þetta var ákveðið á aukakjördæmisþingi í dag.
Efstu sætin í Reykjavík norður skipast því svona hjá Framsókn:
1. sæti: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, skipulagshagfræðingur og formaður Framsóknarflokksins.
2. sæti: Ásta Rut Jónasdóttir, stjórnmálafræðingur, verkefnastjóri og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.
3. sæti: Þórir Ingþórsson, sérfræðingur hjá Tryggingamiðstöðinni.
Í Reykjavík suður verða efstu sætin á þessa leið:
1. sæti: Vigdís Hauksdóttir, lögfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands.
2. sæti: Einar Skúlason, framkvæmdastjóri þingflokks Framsóknarflokksins og fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóðahúss.
3. sæti: Guðrún Valdimarsdóttir, sem er m.a. fyrrverandi framkvæmdastjóri Landsmóts hestamanna.
Matthías Imsland, formaður kjördæmissambands Framsóknarfélaganna í Reykjavík segir að kosningabaráttan sé framundan. Búið sé að skipa kosningastjóra í Reykjavík en ekki verði tilkynnt um hann fyrr en eftir helgi þegar baráttan fer af stað. Þá hefur einnig verið skipaður kosningastjóri Framsóknarflokksins á landsvísu.