„Ég er mjög ánægður með tæp 50% atkvæða í 1. sætið. Ég bauð mig fram í það sæti og það tókst. Ég er líka mjög ánægður með mikla þátttöku í prófkjörinu,“ segir Kristján L. Möller samgönguráðherra, sem skipa mun efsta sæti Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar í vor.
Kristján er með afgerandi forystu í 1. sætið og því virðist ekki vera frágangssök við þátttakendur í prófkjörinu að hafa setið í ríkisstjórn í október síðastliðnum, þegar íslenskt efnahagslíf hrundi. „Neinei, það virðist ekki vera allavega hjá mér. Það var hart sótt og sex aðilar buðu sig fram í fyrsta sætið. En þetta hefur auðvitað verið erfiður tími og háværar kröfur um endurnýjun. Þess vegna er maður kannski enn ánægðari með þennan árangur,“ segir hann.
„Mér þykir þetta bara verið sigurstranglegt og góður hópur,“ segir Kristján. Hann vill ekki tjá sig um úrslitin hvað varðar aðra frambjóðendur eða hvort hópurinn sé hans óskaútkoma, enda segir hann ekki hlutverk oddvita að taka afstöðu til annarra frambjóðenda með þeim hætti. „Mér líst á að vinna með öllu þessu fólki og ég tel að Samfylkingin eigi sóknarfæri í þessu kjördæmi.“