Rökrétt að Jóhanna verði formaður

Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson mbl.is/Brynjar Gauti

„Megin atriðið er að Ingibjörg Sólrún er að stíga til hliðar og ég tel það skarð vera vandfyllt. Hugur minn og annars Samfylkingarfólks er auðvitað hjá Ingibjörgu. En að mörgu leyti er rökrétt að Jóhanna Sigurðardóttir, sem er óskorað forsætisráðherraefni flokksins, verði formaður hans,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar um brotthvarf Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur úr stjórnmálum.

Aðspurður hvort hann muni gefa kost á sér í embætti formanns flokksins segist Dagur ekki tímabært að gefa slíkt út.

„Í mínum huga er þetta ekki dagur stórra yfirlýsinga. Ég hef ekkert verið á þeim buxunum að sækjast eftir því að verða formaður flokksins, en bauð mig hins vegar fram til varaformanns og hef fengið mjög góð viðbrögð við því. Þetta er fyrst og fremst algjörlega ný staða. Ég held að Samfylkingarfólk og forystan eigi að gefa sér þann tíma sem þarf til að meta stöðuna. Mestu skiptir að greiða úr þessu farsællega, af yfirvegun og á lýðræðislegan hátt. Að finna lausn sem sameinar flokkinn því að okkar bíður síðan það verkefni að sameina þjóðina um þær leiðir sem við trúum á út úr þessari kreppu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka