Saka sjálfstæðismenn um málþóf

Frá Alþingi.
Frá Alþingi.

Lokaumræða um stjórnarfrumvarp um séreignasparnað hefur staðið yfir í allt kvöld á Alþingi. Þingmenn Sjálfstæðisflokks gerðu fjölmargar athugasemdir og komu í ræðustól hver á fætur öðrum. Stjórnarliðar sökuðu stjórnarandstæðinga um að tefja málið og stunda málþóf. Til harðra orða skipta kom á milli þingmanna vegna þessa nú á ellefta tímanum.

Árni Þór Sigurðsson Vinstri grænum sagði bersýnilegt að sjálfstæðismenn væru lagstir í málþóf, fyrst og fremst til að koma í veg fyrir að umræða gæti haldið áfram um stjórnskipunarfrumvarpið. Þeir kæmu upp hver á fætur öðrum í málþófi. „Það er sjálfstæðisflokknum til skammar,“ sagði hann. 

Sjálfstæðismenn svöruðu fullum hálsi, sögðu að fram færi nauðsynleg og efnisleg umræða um frumvarp sem hefði augljósa galla. „Við erum öll sammála um það sem hér erum inni, að þetta eru hænuskref,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson Sjálfstæðisflokki. Birkir Jón Jónsson Framsóknarflokki sagði stjórnarandstæðinga setja á svið leikrit.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagði í dag að það vekti mikla furðu að Sjálfstæðisflokkurinn skuli leggjast í þessa för og flokkurinn sé að verða verri en Vinstri grænir voru.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir í tilkynningu, sem hann sendi frá sér í kvöld vegna þessara orða, að á þessu löggjafarþingi, frá 1. október til loka síðustu viku, hafi þingmenn Vinstri grænna talað að meðaltali í 413 mínútur á mann en þingmenn Sjálfstæðisflokksins í 135 mínútur að meðaltali á mann. Þingmenn VG hefðu þannig talað í tæpar 7 klukkustundir en þingmenn Sjálfstæðisflokksins í rúmar 2 klukkustundir.

„Það er því nokkuð langt í land að sjálfstæðismenn á þingi komist með tærnar þar sem Vinstri grænir hafa hælana í sambandi við það að lengja störf þingsins,“ segir Birgir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert