Stjórn Samfylkingarinnar hefur sent frá sér tilkynningu þar sem Ingibjörgu Sólrúnu eru þökkuð frábær störf í þágu flokksins.
„Á fundi stjórnar Samfylkingarinnar í morgun var ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar um að draga sig í hlé frá stjórnmálum að sinni rædd,“ segir í tilkynningunni.
„Stjórnin virðir þá ákvörðun sem Ingibjörg Sólrún hefur tekið í ljósi aðstæðna sem allir þekkja og óskar henni góðs bata. Mikil eftirsjá er að Ingibjörgu sem formanni, hún er mikilhæfur stjórnmálamaður sem vonandi á eftir að láta til sín taka að nýju. Formaður Samfylkingarinnar hefur markað djúp og víðtæk spor með þátttöku sinni og forystu í íslenskum stjórnmálum. Þegar hún velur á alþjóðlegum baráttudegi kvenna að kynna alvarlega ákvörðun sína verður okkur jafnaðarmönnum það ofarlega í huga að hún kórónaði einstakt framlag sitt til jafnréttis í stjórnmálum með því að gera konu að forsætisráðherra í fyrsta sinn sem Samfylkingin myndaði ríkisstjórn.
Samfylkingin mun njóta formennsku Ingibjargar Sólrúnar fram að landsfundi en vill engu að síður þakka henni á þessum tímapunkti frábær störf í þágu lands og þjóðar. Stjórnin þakkar henni fyrir hönd Samfylkingarinnar einstaka forystu og góðar samverustundir í Samfylkingunni.“