Pukrast með breytingar á stjórnarskrá

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde. mbl.is/Golli

Geir H: Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sakaði í dag Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, um að  hafa farið með staðlausa stafi á prenti þegar hún sagði í grein í Morgunblaðinu um helgina að samráð hefði verið haft við alla stjórnmálaflokka á Alþingi um breytingar á stjórnskipunarlögum. 

„Það er hörmulegt að lesa það í dagblaði eftir forsætisráðherra, að það sé farið með slíka staðlausa starfi á prenti," sagði Geir þegar umræða hófst um stjórnlagafrumvarpið á ný á Alþingi í dag, en umræðan stóð fram á 12. tímann í kvöld.

Hann sagði að ríkisstjórnin hefði kallað saman þriggja manna hóp til að vinna að þessu máli en Sjálfstæðisflokki hefði ekki verið boðið að tilnefna mann í þann hóp. Á fundi formanna stjórnmálaflokkanna hefði verið lagt fram blað frá þessum hópi og málinu hefði síðan verið breytt nokkrum sinnum án nokkurs samráðs við Sjálfstæðisflokksins. 

„Ríkisstjórnarflokkarnir með sína litlu nefnd svokallaðra sérfræðinga, hefur verið að pukrast með þetta mál," sagði Geir og bætti við að hann skildi ekki hvað vakti fyrir forsætisráðherra að gefa ekki öllum flokkum kost á að koma fram með sín sjónarmið.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði að ítrekað hefði verið fjallað í stjórnarskrárnefndum um veigamikil atriði í frumvarpinu. 

Geir gagnrýndi sérstaklega ákvæði um stjórnlagaþing í frumvarpinu og sagði, að það kæmi ekki til mála,  að Alþingi gefi frá sér sitt mikilvægasta hlutverk, það að vera stjórnarskrárgjafi, hvað þá að Alþingi taki að sér hið auma hlutverk að vera umsagnaraðili fyrir stjórnlagaþing.

Hann sagði ræða mætti hvort finna mætti flöt á að einhverskonar ráðgefandi stjórnlagaþingi en útfærslan í frumvarpinu, sem nú liggur fyrir Alþingi, komi ekki til mála.

„Þá liggur það fyrir, að það kemur ekki til mála að þjóðin sjálf hafi beina aðkomu að stjórnlagaþingi og fjalli þar um mál sem þingið hefur oft á tíðum ekki getað fjallað um, eins og kjördæmaskipan og kosningalög," sagði Jóhanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka