UJ þakkar Ingibjörgu

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Ungir jafnaðarmenn senda Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sínar allra bestu og hlýjustu kveðjur fyrir störf  í þágu jafnaðarstefnunnar. Ingibjörg hefur hvergi dregið af sér í fjölda ára og framlag hennar til íslensks samfélags er ómetanlegt, segir í tilkynningu frá UJ.

„Hún sameinaði félagshyggjufólk við stjórn Reykjavíkurborgar við að gjörbreyta þar stjórnarháttum; innleiddi fagleg vinnubrögð í áður úreltu og gamaldags bittlingakerfi.

Ásamt félögum í Reykjavíkurlistanum jafnaði femínistinn Ingibjörg kynjahlutföll meðal stjórnenda og dró stórkostlega úr kynbundnum launamun meðal starfsmanna borgarinnar.  Auk þess gerði hún leikskólabyltingu í borginni sem gerði mæðrum kleift að komast á vinnumarkað, að ógleymdu fyrsta tilraunaverkefninu um feðraorlof. Hún barðist fyrst allra fyrir réttindum samkynhneigðra á Alþingi og vann að þeim bæði á þingi og sem borgarstjóri.

Á seinustu árum leiddi hún Samfylkinguna í ríkisstjórn í fyrsta skipti. Í þeirri stjórn var unnið í þágu velferðar og fjölskyldna og snúið af braut nýfrjálshyggjunnar  í skattamálum. Þetta þarf að muna þótt samstarfið við Sjálfstæðisflokk hafi ekki gengið upp vegna aðgerðaleysis í kjölfar kreppunnar. Sem utanríkisráðherra lyfti Ingibjörg meðal annars grettistaki í kvenfrelsismálum, afvopnaði friðargæsluna og kom Palestínu á heimskort Íslendinga fyrir alvöru.

Eftir hrunið í október gagnrýndu Ungir jafnaðarmenn ýmislegt í störfum þáverandi ríkisstjórnar en hafa þrátt fyrir það skilning á hversu gríðarlega erfið staða blasti við Samfylkingunni í ríkisstjórn. Ingibjörg sem utanríkisráðherra fékk í sinn hlut að leysa úr erfiðustu milliríkjadeilu Íslendinga á síðustu áratugum og kom henni farsællega í farveg í stað einangrunar sem annars blasti við.

UJ óska þessum farsæla og fórnfúsa leiðtoga góðs bata og vonast eftir að sjá hana sem fyrst aftur í baráttunni,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert