Loftur Altice Þorsteinsson, verkfræðingur og vísindakennari, hefur tilkynnt um framboð til formennsku í Sjálfstæðisflokki.
Í tilkynningu um framboð sitt segir hann m.a. að ítrekaðar hótanir Samfylkingar, um að næsta ríkistjórn verði knúin til að láta af hendi fullveldi þjóðarinnar, geri kröfu um kröftug viðbrögð. Allir landsmenn þekki hvaða tjóni inngangan í Evrópska efnahagssvæði (EES) 1994 hafi valdið. Allir landsmenn viti, að Icesave kröfur Evrópusambandsins sé erfiðasta viðfangsefni landsmanna.
Samfylkingin hóti að beita afli sínu til að hindra myndum ríkisstjórnar að afloknum kosningum, nema krafa þeirra verði samþykkt, um inngöngu Íslands í Efnahagssambandið. Gera þurfi landsmönnum ljóst, að Sjálfstæðisflokkurinn muni hvergi víkja fyrir óþjóðhollum fyrirætlunum Samfylkingar. Enginn vafi megi leika á hollustu flokks og forustu, við sjálfstætt og fullvalda Ísland.
„Í ljósi þessarar stöðu, hef ég ákveðið að gefa kost á mér til formennsku í Sjálfstæðisflokknum, á komandi landsfundi. Ég heiti á alla landsmenn að snúast til varnar gegn fyrirætlunum Samfylkingar og á Sjálfstæðismenn skora ég sérstaklega, að veita mér liðsinni við að marka flokknum afdráttarlausa stefnu fyrir sjálfstæði þjóðarinnar,“ segir Loftur í tilkynningunni, en hann býður sig fram í 1. - 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.