Ekki náðist samkomulag um framhald þingstarfa á fundi forsætisráðherra með formönnum stjórnmálaflokka á Alþingi í hádeginu. Annar fundur hefur verið boðaður klukkan 17 í dag.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vg, sagði að á fundinum hefði verið farið yfir þrennt: Hvenær þingrofstilkynning verði lesin upp, hvernig staðið verði að tilkynningu um frestun á fundum Alþingis og loks lista yfir mál sem liggja fyrir Alþingi og þarf að afgreiða fyrir þinglok að mati stjórnarinnar.
Steingrímur sagði, að samkomulag væri milli flokka um kjördaginn 25. apríl en ekki væri samkomulag um hvernig staðið yrði að tilkynningu um frestun á fundum þingsins þannig að utankjörfundarafgreiðsla geti hafist. Þá hafi einnig komið fram mismunandi mat á því hve þingið þurfi langan tíma og ekki væri búið að semja um þingmálin.
Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist telja að það gæti verið grundvöllur fyrir samkomulagi um þingstörfin. Sjálfstæðismenn væru tilbúnir til að greiða fyrir öllum þeim þingmálum, sem vörðuðu efnahagsástandið og hagsmuni almennings og fyrirtækja. „En það þýðir, að ríkisstjórnin verður að gefa eftir í öðrum málum, eins og t.d. þeim sem varða breytingar á stjórnarskrá og kosningalögum," sagði Geir.