„Einstakt klúður“ í prófkjöri

Frá prófkjöri Samfylkingarinnar
Frá prófkjöri Samfylkingarinnar mbl.is/Sverrir

„Kjósandi hefur þegar kosið.“ Þessa tilkynningu mátti í gær sjá á vefnum í netprófkjöri Samfylkingarinnar þegar kennitala þjóðþekkts einstaklings, sem ekki var vitað til að væri í Samfylkingunni, var slegin inn.

„Þetta er einstakt klúður,“ sagði viðkomandi þegar Morgunblaðið leitaði viðbragða og vildi ekki vera nafngreindur. Þegar kennitala Helga Hjörvar alþingismanns var slegin inn mátti sjá að hann væri á kjörskrá en ekki enn búinn að kjósa í prófkjörinu. Hins vegar kom ekki á óvart tilkynningin sem birtist þegar kennitala Davíðs Oddssonar, fyrrverandi seðlabankastjóra, var slegin inn þess efnis að hann væri ekki á kjörskrá í prófkjöri Samfylkingarinnar.

Að sögn Sigrúnar Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar, var netkosningin umsvifalaust stöðvuð í gær þegar ábending barst þess efnis að hægt væri að fá þær upplýsingar um þriðja aðila, hvort hann væri skráður í Samfylkinguna og búinn að greiða atkvæði í prófkjörum flokksins. Sagði hún öll kerfi sem byggjast á kennitölum viðkvæm fyrir misnotkun af þessu tagi, þ.e. að notuð væri kennitala þriðja aðila til þess að öðlast aðgang að kerfi.

Í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi sagði hún unnið hörðum höndum að því að yfirfæra tæknilegu hlið netkosningarinnar með það að markmiði að opna fyrir kosningarnar á ný eins fljótt og auðið væri. Sagðist hún binda vonir við að það gæti orðið þegar í gærkvöldi eða nótt.

Netkosningum Samfylkingarinnar er þegar lokið í þremur kjördæmum, þ.e. Suðurkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi, en netkosningu í Reykjavíkurkjördæmunum og Suðvesturkjördæmi lýkur hins vegar ekki fyrr en á morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá Persónuvernd hafði ekki borist nein kvörtun vegna málsins í gærkvöldi, en hins vegar væri ekki útilokað að kvörtun gæti borist síðar. silja@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka