Las upp forsetabréf um þingrof

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. Kristinn Ingvarsson

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra las upp forsetabréf um þingrof 25. apríl og kosningar í upphafi þingfundar í morgun. Enn liggur þó ekkert fyrir um hvenær þingfundum verður frestað þar sem samkomulag hefur ekki náðst milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Jóhanna sagði að nú verði unnt að hefja undirbúning kosninga. Hún benti á að nú félli kjördagur saman við þingrofsdag í samræmi við breytingar sem voru gerðar á stjórnarskránni árið 1991. Unnt verði að leggja fram ný lög á þingi þrátt fyrir þessa tilkynningu.  Ekkert hefði verið ákveðið um hvenær þingfundum verði frestað. Hingað til hefði skemmst liðið mánuður frá frestun funda þingsins og til kjördags. Lagði hún áherslu á að öll brýn mál verði afgreidd áður en þinginu verður frestað.

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði Sjálfstæðisflokkinn ekki gera ágreining við tilkynningu forsætisráðherra. Hins vegar gagnrýndi hann að ætlunin sé að þingið starfi jafnvel vikum saman eftir að þessi tilkhynning hefði verið lesin upp. Það væri óeðlilegt.  

Geir sagði að breytingin á þingrofsákvæði stjórnarskrárinnar hefði ekki verið hugsuð svo að  þingið starfaði eins og ekkert hefði í skorist eftir að þingrofstilkynningin hefði verið lesin upp, þó það væri formlega heimilt. Geir sagði að ætlast hefði verið til þess að þingið lyki aðeins brýnustu störfum eftir að þingrof hefur verið tilkynnt. Hann sagði að sjálfstæðismenn vildu greiða fyrr framgangi mikilvægra mála. Hvatti hann forsætisráðherra að beita sér fyrir því að náð verði samkomulagi um þinglok. Geir sagði hægt að ljúka þingstörfum á mjög stuttum tíma ef vilji væri fyrir hendi.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagðist ekki hafa áhyggjur af forminu eins og ástatt væri í þjóðfélaginu. Nú væri búið að festa kjördag en Alþingi þurfi að ljúka mjög mikilvægum verkefnum, m.a. þeim lýðræðisumbótum sem þjóðin kallaði eftir.

Steingrímur hvatti til þess að flokkarnir næðu saman um að kosningabaráttan verði hófstillt og með eins litlum tilkostnaði og unnt væri.

Sérnefnd um stjórnarskrárbreytingar kom saman til síns fyrsta fundar í morgun, en nefndin hefur fengið fruvmarpið til breytinga á stjórnarskránni til meðferðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert