„Ég stefndi auðvitað á fyrsta sætið og fékk góðan stuðning í það sæti. En Skagfirðingurinn knái hafði betur. Ég er engu að síður sáttur. Þetta er flottur listi og sigurstranglegur,“ segir Guðmundur Steingrímsson, sem hafnaði í öðru sæti í póstkosningu framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi.
Guðmundur hlaut 635 atkvæði í 1. til 2. sæti eða rúmlega 42% atkvæða. Hann segist hafa unnið ötullega að framboðinu, farið víða og hitt fjölda fólks. Það hafi skilað sér í kvöld en eflaust hafi hann líka notið sinna róta í kjördæminu.
„Það eru sterkar líkur á að ég setjist á þing, hefðin segir okkur það og við finnum mikinn meðbyr með okkar stefnu,“ segir Guðmundur Steingrímsson.