Fyrst og fremst þakklátur

gunnar Bragi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokks í sveitarstjórn sveitarfélagsins Skagafjörður
gunnar Bragi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokks í sveitarstjórn sveitarfélagsins Skagafjörður mbl.is

„Ég er á leið á þing já, samkvæmt þessu. Það verður væntanlega minn vinnustaður fljótlega. Auðvitað þarf að kjósa fyrst en Framsóknarflokkurinn hefur verið nokkuð sterkur hér í kjördæminu og mun væntanlega sanna það í apríl að hann er það,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, sem sigraði örugglega í póstkosningu framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi í kvöld.

„Fyrst og fremst er ég náttúrulega þakklátur fyrir svona afgerandi stuðning. Þetta er auðvitað líka sigur mikillar vinnu en ég held líka að þetta sé mjög sterkur listi sem þarna hefur verið stillt upp,“ segir Gunnar Bragi.

Athygli vekur að Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, komst ekki á blað. Samkvæmt heimildum mbl.is hafnaði Kristinn á botni lista þeirra níu sem gáfu kost á sér í póstkosningunni.

„Það hefur verið kallað eftir breytingum alls staðar og ég held að útkoma Kristins endurspegli þessar kröfur,“ segir Gunnar Bragi.

Í fimm efstu sætum á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi verður flest nýtt fólk. Gunnar Bragi segir það í takti við kröfur um breytingar.

„Ég held að þetta sé sigurstranglegur listi og við erum að auki með góða málefnastöðu sem ég held að þetta fólk sé allt sammála um að vinna að. Næg eru verkefnin,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert