Illugi efstur í Reykjavík

Illugi Gunnarsson.
Illugi Gunnarsson. mbl.is/Golli

Illugi Gunnarsson er efstur í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Alls hafa verið talin 1595 atkvæði og er Illugi Gunnarsson efstur með 966 atkvæði í fyrsta sætið. Alls höfðu um 7000 kosið í prófkjörinu kl. fimm í dag. 19471 er á kjörskrá.

Guðlaugur Þór Þórðarson hlaut 549 atkvæði í fyrsta til annað sæti. 

Pétur Blöndal hlaut 756 í fyrsta til þriðja sætið.

Ólöf Nordal hlaut 586 atkvæði í fyrsta til fjórða sæti.

Sigurður Kári Kristjánsson hlaut 642 atkvæði í fyrsta til fimmta sæti.

„Það á ekki að fagna sigri fyrr en búið er að telja öll atkvæðin. En ef þetta er vísbending um niðurstöðuna þá er ég auðvitað mjög ánægður,“ sagði Illugi Gunnarsson þegar fyrstu tölur úr prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík lágu fyrir. 

„Ég hef auðvitað reynt að gera mitt besta í stjórnmálum og reynt að haga mínum málflutningi þannig að það nýttist Sjálfstæðisflokknum og um leið þjóðinni,“ sagði Illugi þegar hann var spurður hverju hann þakkaði gott gengi í prófkjörinu.

Stærsti pólitíski sigur

„Ef þetta er niðurstaðan þá er þetta minn stærsti pólitíski sigur til þessa,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson. Sagði hann ljóst að á brattan hefði verið að sækja fyrir sig þar sem hann hefði, vegna stjórnarskipta, hætt snögglega sem ráðherra þar sem hann hefði þurft að taka nauðsynlegar en jafnframt mjög erfiðar skipulags- og niðurskurðarbreytingum í heilbrigðisgeiranum. Benti hann á að hann myndi, ef þetta yrði niðurstaðan, leiða annað Reykjavíkurkjördæmið sem væri kjörstaða.

„Ætla mér að breyta alþingi“

„Ég hafði engar væntingar. Vissulega fann ég fyrir töluverðum stuðningi, en það getur oft verið villandi,“ sagði Pétur Blöndal og tók fram að hann hafi aldrei hringt í nokkurn mann  og beðið fólk um að styðja sig. „Ég er mjög stefnufastur og veit alveg hvert ég ætla að fara,“ sagði Pétur þegar hann var inntur eftir því hverju hann þakkaði gott gengi sitt. 

Spurður hvort hann sé svar almennings um endurnýjun í stjórnmálum svarar Pétur því neitandi, enda hafi hann setið á þingi í 14 ár.  „Ég er sko greinilega ekki dæmi um endurnýjun. En ég hef í raun aldrei náð inn í þingflokkinn og er utanveltu. Mér hefur fundist ég eiga mjög erfitt með að ná inn í þingflokkinn. En ég ætla mér að breyta alþingi,“ segir Pétur og nefndir þar sem dæmi að hann vilji að nefndir þingsins semji frumvörp í stað þess að þau séu samin í ráðuneytum eða stofnunum úti í bæ.

Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson Ómar Óskarsson
Pétur Blöndal
Pétur Blöndal
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert