Þeir flokkar sem efna til prófkjörs og forvals fyrir komandi alþingiskosningar settu reglur um það hve miklu frambjóðendur máttu kosta til baráttunnar.
Hjá Samfylkingunni var ætlast til að frambjóðendur myndu stilla kostnaði í hóf. Frambjóðendum var óheimilt að auglýsa framboð sitt í fjölmiðlum. Þó var þeim heimilt að auglýsa fundi eða aðra viðburði enda færi kostnaður við þær auglýsingar ekki yfir 300 þúsund krónur. Heildarkostnaður við framboðið mátti ekki fara yfir 1 milljón króna. Frambjóðendur skulu að prófkjöri loknu skila yfirliti um tekjur og gjöld
Sjálfstæðisflokkurinn beindi þeim tilmælum til framjóðenda í prófkjörum flokksins að sýna hófsemi og aðhald í kosningabaráttunni. Ákveðið var að miða við að þakið væri þrefalt lægra en leyfilegt hámark er í fjölmennasta kjördæminu samkvæmt lögum flokksins. Máttu frambjóðendur leggja að hámarki 2,5 milljónir hver í baráttuna.
Hjá Vinstri grænum var hverju kjördæmisfélagi fyrir sig falið að setja reglur um kostnað og lögð áhersla á að lágmarka kostnaðinn. Kynning fór fram á vegum félaganna og aðrar auglýsingar voru óheimilar.
Fram kom á vefritinu Smugunni í gær, að kostnaður hjá einstökum frambjóðendum í Reykjavík hefði hæst farið í 10.200 krónur. Það var Davíð Stefánsson sem lagði mesta fjármuni í kosningabaráttuna. Samkvæmt yfirliti frambjóðenda, hefur kostnaður þeirra aðallega falist í kökubakstri og uppáhellingum á kaffi.