Líflegasta prófkjörshelgin

Helgin verður mjög lífleg í pólitíkinni. Í dag fer fram prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í fimm kjördæmum, tvenn prófkjör hjá Samfylkingunni, eitt forval hjá Vinstri grænum auk þess sem kosið verður á einn framboðslista hjá framsóknarmönnum. Þetta er sú helgi ársins þegar flest prófkjör fara fram. Því er ljóst að tugir þúsunda manna munu um helgina velja frambjóðendur á lista flokkanna í alþingiskosningunum 25. apríl n.k.

Framsóknarflokkurinn

Aukakjördæmisþing framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi verður haldið á Egilsstöðum á morgun, sunnudag, og hefst það klukkan 12. Klukkan 14,35 hefst kosning um skipan framboðslista flokksins í alþingiskosningunum 25. apríl. 16 manns gefa kost á sér til setu á listanum. Þeir munu allir halda framboðsræður, áður en þingfulltrúar ganga til kosninga. Niðurstaða kosninganna verður tilkynnt klukkan 17. Valgerður Sverrisdóttir, oddviti flokksins til margra ára, gefur ekki kost á sér til framboðs að þessu sinni.

Samfylkingin

Prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmunum báðum og Suðvesturkjördæmi lýkur í dag, en netkosning hefur staðið yfir.

Í Reykjavík verður hefðbundinn kjörstaður opinn í kosningamiðstöðunni í Skólabrú við Austurvöll kl. 9-18. Þangað geta þeir komið, sem ekki vilja kjósa rafrænt.

Klukkan 18 hefst kosningavaka í Skólabrú. Fyrstu tölur verða birtar fljótlega eftir opnun. Stefnt er að því að birta næstu tölur um klukkan 20 og lokatölur um miðnætti. 19 manns gáfu kost á sér í prófkjörinu. Helstu tíðindin eru þau, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar og oddviti flokksins í Reykjavík, gefur ekki kost á sér að þessu sinni.

Í Suðvesturkjördæmi fer hefðbundin kosning fram á þremur stöðum kl. 10-17. Þátttakendur í prófkjörinu eru 15 talsins. Oddviti flokksins í kjördæminu, Gunnar Svavarsson, gefur ekki kost á sér til áframhaldandi þingmennsku. Kosningavaka verður í félagsheimili Samfylkingarinnar að Strandgötu 43 í Hafnarfirði og hefst hún klukkan 18. Búist er við fyrstu tölum fljótlega uppúr klukkan 18.

Sjálfstæðisflokkurinn

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum verður í dag klukkan 10-18. Kosið er á 7 stöðum. Alls gefa 29 kost á sér í prófkjörinu. Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins og oddviti flokksins, gefur ekki kost á sér að þessu sinni og heldur ekki Björn Bjarnason. Talning fer fram í Valhöll og eru fyrstu tölur væntanlegar uppúr kl. 18. Ekki er búist við því að talningu ljúki fyrr en um eða eftir miðnætti.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi fer fram klukkan 9-18. Kosið er á 6 stöðum. 12 manns eru í framboði. Talning fer fram í Sjálfstæðishúsinu við Hlíðarsmára í Kópavogi. Fyrstu tölur eru væntanlegar upp úr klukkan 18.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi hefst klukkan 9 og því lýkur klukkan 18. Kosið er á 20 stöðum, en opið er skemur í nokkrum smærri byggðarlögum. 10 manns eru í framboði. Talning hefst strax að loknum kjörfundi, en talið verður á Akureyri. Hins vegar verða tölur ekki birtar fyrr en á morgun, sunnudag. Kjördæmið er víðfeðmt svo tíma tekur að safna saman atkvæðunum. Að auki er veðurspáin óhagstæð.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi verður haldið klukkan 10-18 og er kosið á 23 stöðum. Þar er einnig opið skemur í nokkrum kjördæmum. 17 hafa gefið kost á sér í prófkjörinu. Árni M. Mathiesen, oddviti flokksins í kjördæminu, býður sig ekki fram til endurkjörs. Talning fer fram í Sjálfstæðishúsinu við Austurveg á Selfossi og eru fyrstu tölur væntanlegar klukkan 19. Klukkan 22 hefst kosningavaka á Hótel Selfossi og verða næstu tölur þá birtar. Óvíst er hvenær talningu lýkur því veðurspá er óhagstæð og alls óljóst hvort tekst að koma atkvæðaseðlum frá Vestmannaeyjum á talningarstað.

Vinstri grænir

Forval Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi fer fram í dag og stendur frá 10 til 22. Kosið er á þremur stöðum. Alls gefa 15 manns kost á sér í forvalinu.

Kosningavaka verður í Fjörukránni í Hafnarfirði frá klukkan 22 og er gert ráð fyrir því að talningu verði lokið um miðnætti.

Gert er ráð fyrir því hjá flestum flokkum að frambjóðendurnir verði viðstaddir á talningarstað, þegar fyrstu tölur verða birtar.

Bjarni Benediktsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir takast á í prófkjöri …
Bjarni Benediktsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir takast á í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í dag.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert