Prófkjör Lýðræðishreyfingarinnar fer fram í dag og næstu daga á
vefnum austurvollur.is. Þar er settur fram óraðaður listi og kjósendur velja sjálfir úr þá sem þeir vilja á þing úr 126 einstaklingum.
Í tilkynningu segir að Lýðræðishreyfingin og þeir sem að henni standa, sameinist um beint og milliliðalaust lýðræði en önnur mál séu hvers og eins frambjóðanda, án flokkafjötra.
Notendur vefsins austurvollur.is tilnefna frambjóðendur og hafa nöfn Þráins Bertelssonar, Jóns Magnússonar, Jóns Baldvins Hannibalssonar, Ásgerðar Jónu Flosadóttur, Kristins H. Gunnarssonar, Arnþrúðar Karlsdóttur og Davíðs Oddssonar, verið sett inn, svo dæmi séu tekin.
Í stefnuskrá Lýðræðishreyfingarinnar segir m.a. að fækka beri þingmönnum veðri fækkað í 31, landið verði gert að einu kjördæmi, þingmenn verði valdir í persónukosningum og að ráðherrar sitji ekki á Alþingi.
Þá segir að allir íslenskir ríkisborgarar eigi að geta sent Alþingi tillögu að nýju lagafrumvarpi en frumvarp skuli tekið til umfjöllunar ef það er stutt undirskriftum 1% kjósenda. Þá er í stefnuskránni lagt til að hraðbankakerfið, sem nú er í eigu ríkisins, verði nýtt sem kjörklefar fyrir rafrænt þjóðþing.