Röð átta efstu manna í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík var óbreytt klukkan 19 frá fyrstu tölum, sem lesnar voru klukkan 18. Jóhanna Sigurðardóttir hafði fengið1893 atkvæði í 1. sæti þegar talin höfðu verið 2363 atkvæði af um 3500. Er það mun minni kjörsókn en í prófkjöri flokksins í árslok 2006 en þá kusu rúmlega 4800 manns.
Búið er að telja öll atkvæði, sem greidd voru á netinu. Eftir er að greiða um 1200 atkvæði, sem greidd voru á kjörstað.
Össur Skarphéðinsson hafði fengið 715 atkvæði í 1.-2. sæti, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hafði fengið 607 atkvæði í 1.-3. sæti, Helgi Hjörvar 925 atkvæði í 1.-4. sæti, Skúli Helgason 920 atkvæði í 1.-5. sæti, Valgerður Bjarnadóttir 970 atkvæði í 1.-6. sæti, Steinunn Valdís Óskarsdóttir hafði fengið 1098 atkvæði í 1.-7. sæti og Anna Pála Sverrisdóttir 965 atkvæði í 1.-8. sæti.
Samfylkingin fékk 8 þingmenn í síðustu alþingiskosningum. Athygli vekur að Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félagsmálaráðherra er ekki meðal 8. efstu og ekki heldur Mörður Árnason, varaþingmaður flokksins í Reykjavík og Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins.