Gert með fullu samþykki fulltrúa frambjóðenda

Ekki reyndust allir á kjörskrá sem töldu sig vera í …
Ekki reyndust allir á kjörskrá sem töldu sig vera í flokknum.

Hátt í 150 einstaklingar sem tóku þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, reyndust ekki vera skráðir í flokkinn. Helgi Pétursson, formaður kjörstjórnar, segir vandlega hafa verið farið yfir málið og sú ákvörðun tekin með fullu samþykki fulltrúa frambjóðendanna að atkvæðin yrðu ekki talin með.

„Það komu inn fjölmörg utankjörstaðaatkvæði í talningu seinni partinn í gær og við förum bara yfir þau eins og lög gera ráð fyrir,“ segir Helgi. Strax hafi komið í ljós að nokkur hópur fólks var ekki á kjörskrá. 

Notuð hafi verið miðlæg tölvutæk flokkskrá sem uppfærð var  miðvikudagskvöldið 10. mars þegar að frestur til að skrá sig í flokkinn og á stuðningsmannalista rann út.  „Þetta var það gagn sem að við höfðum og þeir fulltrúar frambjóðenda sem voru á staðnum voru sammála því að þeir sem að ekki fyndust á flokkskrá gætu ekki tekið þátt í prófkjörinu. Þegar upp var staðið reyndust það vera 147 atkvæði.“

Helgi segir vandlega hafa verið farið yfir atkvæðin og að sér sé ekki kunnugt um að endurskoðun atkvæða sé á dagskrá.

Árni Páll Árnason alþingismaður hlaut fyrsta sætið í prófkjörinu sem lauk í gær og á eftir honum komu Katrín Júlíusdóttir alþingismaður, Lúðvík Geirsson bæjarstjóri í Hafnarfirði og Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrrverandi umhverfisráðherra. Flokkurinn hefur fjóra þingmenn í kjördæminu nú, en í fimmta sæti varð Magnús Orri Schram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert