VG: Enginn frambjóðandi með nýja félagaskrá

Jón Bjarnason
Jón Bjarnason

Frambjóðendur í forvali Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi gagnrýna framkvæmd forvalsins sem lauk í gær. Jón Bjarnason, alþingismaður, hafi einn haft aðgang að félagaskrá og því haft forskot á aðra frambjóðendur. Framkvæmdastýra flokksins segir að enginn frambjóðandi hafi haft nýjustu félagaskrá í höndum, að því er fram kemur á fréttavefnum Bæjarins besta.

Jón Bjarnason alþingismaður varð í fyrsta sæti í forvali Vinstri grænna í Norð vesturkjördæmi um helgina, Lilja Rafney Magnúsdóttir frá Suðureyri í öðru og Ásmundur Einar Daðason í dölum í því þriðja. Valið var með póstkosningu. Sumir frambjóðendur, sem ekki vilja láta nafns síns getið, telja að Jón hafi haft forskot á aðra frambjóðendur, því hann hafi haft í höndum skrá yfir félaga í Vinstri grænum í kjördæminu, sem aðrir hafi ekki haft. Drífa Snædal, framkvæmdastýra flokksins, segir þetta rangt, í samtali við BB.

Drífa segir að fjölgað hafi um fimmtíu prósent á félagaskrá vinstri grænna undanfarið, því hafi eldri félagaskrá sem Jón Bjarnason hafi haft í höndunum sem þingmaður, verið langt í frá nákvæm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert