Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður leggur til að komið verði á persónukjöri. Jafnframt leggur Kristinn til tekin verði upp sú meginregla að stjórnmálaflokkar gangi bundnir til kosninga með sameiginlega umsamda og upplýsta stjórnmálasýn og stefnu.
Með frumvarpinu Kristins til breytinga á Stjórnarskipunarlögum er gert ráð fyrir að kjósendur geti greitt tvö atkvæði við kosningar til Alþingis. Annað atkvæðið verður líkt og nú er greitt lista en hitt atkvæðið getur kjósandi ákveðið að greiða einum einstaklingi óháð framboðslistum. Ef kjósandi nýtir ekki annað atkvæðið fellur það niður. Frambjóðendur geta því náð kosningu með tvennu móti. Annars vegar með hinu nýja persónukjöri, þannig að sá telst hafa náð kosningu sem hlýtur flest atkvæði í persónukosningu af listum. Hins vegar, líkt og nú er, með listakosningu í kjördæmissæti, þannig að þeir frambjóðendur koma einir til greina sem skipa efstu sæti lista.
Miðað er við persónukjör að ákveðnu marki í kjördæmum, þannig að eitt af kjördæmissætunum sé persónusæti í minni kjördæmunum en tvö persónusæti verði í stóru kjördæmunum þremur.
Þá verður listakjörnum kjördæmissætum fækkað að sama skapi. Þeir sem samtals yrðu kosnir persónukjöri yrðu níu talsins. Jöfnunarsætin yrðu óbreytt eða níu .
Miðað er við að fjöldi þingsæta yrði óbreyttur í hverju hinna sex kjördæma frá því sem nú er. Kristinn H. Gunnarsson telur að tök forustu flokkanna muni með þessu móti minnka á hverjir verði kosnir.
Kosningabandalög meginreglan
Kristinn H. Gunnarsson segir að núverandi framkvæmd flokkanna, að ganga óbundnir til kosninga, geti varla talist opin og lýðræðisleg framkvæmd að því leyti að kjósendur hafi ekki getað vitað hvaða flokkar hygðust starfa saman eftir kosningar, t.d. í viðræðum um stjórnarmyndun. Þetta hafi valdið því að í raun hafi allir möguleikar verið opnir við stjórnarmyndanir. Helsti ókosturinn er að mati Kristins að stefnumál og málefnavinna stjórnmálaflokka og einstaklinga innan þeirra, sem jafnan eru veigamestu atriðin fyrir kjósendur, kunna að hafa orðið einföld skiptimynt í stjórnarmyndunum.
Kristinn segir að flokkar, sem vilji sýna kjósendum ætlun sína um stjórnarsamstarf í verki, geti hæglega myndað einhvers konar sameiginlegar stjórnmálahreyfingar – kosningabandalög – um stefnur og málefni og boðið fram sem ein samtök þótt hver þeirra hafi sína sérlista eða flokka í boði. Þetta hafi einnig verið nefnt fylkingar, fjöllistar, sameiginlegt framboð eða samflot lista, svo að dæmi séu nefnd.
Að minnsta kosti 14 ríki í heiminum, þar af 10 Evrópuríki, hafa sérstakar reglur um kosningabandalög í kosningareglum sínum. Hugmynd Kristins gengur út á að öll framboð, hvort sem flokkar bjóða fram í bandalagi við aðra eða í sínu lagi, teljast stjórnmálahreyfingar í skilningi laga um kosningar til Alþingis. Slíkar hreyfingar eru myndaðar um málefni og stjórnmálasýn sem kæmi til framkvæmda ef viðkomandi hreyfing flokka næði tilskildum hluta atkvæða í kosningum. Ætlunin er að með þessu fyrirkomulagi fáist sterk vísbending um ríkisstjórnarmyndun, en eðlilegt gæti þá talist að forseti leitaði fyrst til stærsta bandalagsins að kosningum loknum.
Fleiri útfærslur á kosningabandalögum
Kristinn segir fleiri útfærslur hugsanlegar. Til dæmis megi hugsa sér að einstaklingar bindist samtökum um lista þótt ekki sé um flokksframboð að ræða, eða sérlista innan flokka, t.d. um einstök málefni á vettvangi stjórnmálanna.