Vaxtalækkun lífsnauðsynleg

Guðjón Arnar Kristjánsson.
Guðjón Arnar Kristjánsson. mbl.is

Frjálslyndi flokkurinn telur að tafarlaus og mikil lækkun stýrivaxta  nú sé  beinlínis lífsnauðsynleg fyrir fjárhag heimila og lykilatriði fyrir endurreisn atvinnulífs í landinu. Flokkurinn telur að lækka eigi stýrivexti tafarlaust niður í 8% og lækka þá síðar eftir því sem unnt reynist.

Í ályktun um aðgerðir í efnahagsmálum, sem samþykkt var á landsfundi Frjálslynda flokksins um helgina segir að lágir vextir og stöðugt verðlag  séu mikilvægustu forsendur endurreisnar.

Þá segir að samkvæmt ákvörðun Alþjóðagjaldeyrisjóðsins (AGS) hafi stýrivöxtum Seðlabanka Íslands verið haldið í 18 % á síðustu 4 mánuðum.

„Þessir okurvextir eru afleiðing efnahagslegrar óstjórnar í landinu á síðustu árum og glórulausrar stýrivaxtastefnu Seðlabanka Íslands, sem leiddi til þess að mikið af erlendu fjármagni streymdi til landsins. Afleiðingin varð síðan falskt gengi krónunnar og útlánaþensla bankanna, sem árum saman skapaði mikla þenslu í þjóðfélaginu. Áhrif hávaxtastefnu Seðlabankans urðu því öfug við það sem ætlað var og allir þekkja afleiðingarnar, segir í ályktun frjálslyndra.

Flokkurinn telur að í því harða samdráttarskeiði sem nú sé hafið, valdi hávaxtastefnan eignabruna og viðhaldi verðbólgu. Ekkert efnahags og atvinnulíf fái þrifist undir slíku vaxtaokri. Fyrirtækin sigli í þrot í stórum stíl og sama máli gegni um fjárhag fjölda heimila. Atvinnuleysi aukist hröðum skrefum svo þúsundir manna missi vinnuna.

Frjálslyndi flokkurinn segi stjórnvöld verða að ná samkomulagi við fulltrúa AGS um vaxtalækkun án tafar. Lækkun vaxta sé brýnasta forgangsmálið í atvinnumálum og  fyrir afkomu heimila.

Allar vísitölur frystar í þrjú ár

Í ályktun Frjálslynda flokksins er ennfremur hvatt til þess að verðtrygging  lána í íslenskum krónum verði afnumin tímabundið, með því að frysta  allar vísitölur í þrjú ár.  Sá tími verði síðan notaður til  undirbúnings því  að afnema verðtrygginguna  varanlega, þar til annar gjaldmiðill leysir krónuna af hólmi.

Afnám verðtryggingar á lánum væri að mati frjálslyndra mjög mikilvægur liður í að koma á varanlegum stöðugleika á verðlagi í landinu. Þá myndi afnám verðtryggingar styrkja forsendur fyrir mikilli lækkun vaxta strax, þar sem helstu áhrifaþættir fyrir áframhaldandi hækkun verðlags nú,  eru háir vextir og verðtrygging lána. Frjálslyndir telja að strax í kjölfar þessara aðgerða muni draga hratt úr atvinnuleysi og viðsnúningur gæti komið áður en langt um  líður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert