Björgvin G.: Styður frumvarp um kosningabandalög

Björgvin G. Sigurðsson
Björgvin G. Sigurðsson

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, tekur undir frumvarp Kristins H. Gunnarssonar, þingmanns, um breytingar á kosningalögum.  Kristinn leggur til að flokkar geti myndað bandalög með sjálfstæðum listum en öll atkvæði þeirra yrðu talin saman sem um einn flokk væri að ræða. „Þetta mál styð ég heils hugar og tel að geti orðið til þess að mynda fyrir hverjar kosningar skýra valkosti um stjórnarmyndun," að því er segir í pistli Björgvins á pressan.is.

„Núverandi fyrirkomulag er afleitt. Flokkar segja eitt og gera annað. Höfuðfjendur ganga til samstarfs sem á sér litla raunverulega lífsvon og kjósendur hafa óskýra mynd af því hvað þeir raunverulega eru að kjósa yfir sig.

Kristinn H. er einsog ég mikill áhugamaður um sameiningu og samstarf félagshyggjuflokkana allra vinstra megin við miðju íslenskra stjórnmála. Um þá framtíðarsýn okkar um frekari samruna félagshyggjuflokkanna ræðum við oft og reynum að rýna í framtíðina.

Sjálfur hóf ég þátttöku í stjórnmálum vegna ákafra skoðana minna á sameiningu vinstri flokkanna. Hún gekk eftir að hluta til eftir en lengra þarf að ná. Ég tel að sameining/bandalag Samfylkingar, Framsóknar, Frjálslyndra og Vinstri grænna sé það sem koma skal. Að því eigum við að stefna. Kosningabandalagi allra flokka frá miðju og til vinstri. Bandalagi sem síðar gæti orðið að einum stórum félagshyggjuflokki.

Meginmálið er samt að ná félagshyggjufólki saman í eitt bandalag. Við höfum átt allar okkar stærstu stundir sameinuð í hreyfingum; Reykjavíkurlistanum og Röskvu," skrifar Björgvin.

Hann telur þó litlar líkur á slíku bandalagi fyrir vorið. „Þó maður viti svo sem aldrei. En að þessu eigum við að stefna og vinna hörðum höndum í stað þess að grafa okkur dýpra ofan í skotgrafirnar sem er helsta von íhalds og hægri manna á því að komast aftur til valda og taka til óspilltra málanna við að byggja upp skýjaborgir frjálshyggju og ójafnvægis.

Hefjum okkur upp fyrir ættbálkadeilur stjórnmálaflokkana og sameinumst í eina hreyfingu sem saman eigum að vera. Frumvarp Kristins vinar míns er gott innlegg í þá baráttu. Hver veit nema draumurinn rætist um að hinar ýmsu kvíslar frjálslyndis og félagshyggju renni í eina straumþunga á innan fárra missera." Pistill Björgvins G. Sigurðssonar í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert