Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, átti fund með Kristjáni Guðmundssyni formanni kjörstjórnar Samfylkingarinnar í gærkvöld, þar sem hann tilkynnti formanninum að hann hafnaði því að taka þriðja sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í komandi alþingiskosningum, en hann bauðst á hinn bóginn til þess að skipa fimmta sætið, sem Samfylkingin lítur á sem baráttusætið í Kraganum.
Lúðvík var ekki sáttur við að hljóta þriðja sætið í prófkjörinu, en aðeins munaði 57 atkvæðum á honum og Árna Páli Árnasyni í fyrsta sætið. 147 atkvæði voru dæmd ógild vegna þess að viðkomandi fundust ekki á félagaskrá. Það mun, samkvæmt heimildum mbl.is hafa valdið mikilli óánægju ákveðinna einstaklinga sem þarna áttu atkvæði, því þeim mun hafa verið sagt að atkvæði þeirra yrðu meðhöndluð sem kæruatkvæði. Niðurstaðan varð sú að það var ekki gert.
Lúðvík bauð sig aðeins fram í fyrsta sætið. Hann sagði í samtali við mbl.is að hann hafi verið ósáttur við niðurstöðuna og því hafi hann hugsað sinn gang og rætt við sitt fólk áður en hann ákvað sig. „Ég fundaði með Kristján Guðmundssyni í gær og tilkynnti honum að ég myndi ekki taka þriðja sætið, en ég væri reiðubúinn að taka baráttusætið, fimmta sætið," sagði Lúðvík.
Lúðvík sagði að formaður kjörstjórnar myndi nú fara yfir tilboð sitt með uppstillingarnefnd Samfylkingarinnar. „Ég bauð mig fram í fyrsta sætið og það var mjótt á munum milli okkar Árna Páls. Ég var aldrei að bjóða mig fram í þriðja sætið og þegar þessi niðurstaða liggur fyrir, ekki síst með vísan til þeirra eftirmála sem urðu varðandi atkvæði sem úrskurðuð voru ógild, þá met ég það þannig að það sé sterkasti leikurinn fyrir listann og framboðið að ná saman þessum stóra kjarna hér í Hafnarfirði, að ég setjist í baráttusætið. Við erum vanir því að spila sóknarleik hér í Hafnarfirði," sagði Lúðvík Geirsson.