Á aðalfundi Íslandshreyfingarinnar - lifandi lands í gær var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að óska eftir því við Samfylkinguna að Íslandshreyfingin verði eitt af aðildarfélögum hennar, að því fram kemur í fréttatilkynningu frá Íslandshreyfingunni. Er skorað á félagsmenn Íslandshreyfingarinnar að veita Samfylkingunni lið og taka virkan þátt í starfi hennar í samstarfi við öflugan hóp umhverfisverndarfólks innan hennar.
Í tilkynningunni segir að á fundinum hafi komið fram að þetta væri í samræmi við þá yfirlýsingu við stofnun Íslandshreyfingarinnar 2007 að henni væri ætlað að breikka fylkingu grænna þingmanna á Alþingi og koma í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hefðu þar meirihluta og úrslitavald varðandi það að knýja stóriðjustefnuna áfram.
Viðbrögð yfirgnæfandi meirihluta félagsmanna við tölvubréfi í febrúar um sérstakt framboð í vor voru þau að of mikil áhætta yrði tekin á því að slíkt framboð nú myndi geta gert ógagn rekar en gagn.
Flokksstjórn Samfylkingarinnar hefur tekið málaleitan Íslandshreyfingarinnar vel og mun leggja hana fyrir á landsfundi Samfylkingarinnar eftir viku, segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram að á aðalfundi Íslandshreyfingarinnar voru kjörnir í stjórn.
Ómar Ragnarsson, formaður.
Margrét Sverrisdóttir, varaformaður.
Daníel Helgason, formaður fjármálaráðs.
Snorri Sigurjónsson.
Sólborg Alda Pétursdóttir.
Darri Edvardsson, varamaður.