Grunngildi Sjálfstæðisflokksins brugðust ekki heldur fólk. Þetta er meðal niðurstaðna í skýrslu Endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins sem kom út í dag og er harðorð í garð Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins og stjórnvalda í aðdraganda bankahrunsins.
Skýrslunni er skipt í fjóra meginhluta sem nefnast Uppgjör og lærdómur, Hagvöxtur framtíðarinnar, Atvinnulíf og fjölskyldur og Samkeppnishæfni. Fyrsti kaflinn vekur athygli fyrir hversu harðorður hann er varðandi ábyrgð stjórnvalda.
Segir m.a. að þrátt fyrir alþjóðakreppuna sé vandinn hér á landi að miklu leyti heimabúinn enda kreppan óvíða jafn djúp og hér. Seðlabankinn og stjórnvöld hafi of seint brugðist við mikilli stækkun bankakerfisins – til þess hafi áhugi íslenskra stjórnmálamanna og forkólfa atvinnulífsins á að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð verið of mikill.
Þá hefðu Seðlabankinn og FME átt að kanna á hvaða viðskiptalegu forsendum bankarnir kepptu við Íbúðalánasjóð um lánveitingar því ekki verði séð að bankarnir hafi haft af þeim venjulegan hagnað. Það hafi verið óheillaskref að samþykkja 90% húsnæðislán og hækka lánshámörk.
Miklar lánveitingar Seðlabankans til bankanna gengum svokölluð endurhverf viðskipti eru sögð hafa verið alvarleg mistök. Ein stærstu mistök stjórnvalda hafi þó falist í því að samþykkja innlánssöfnun íslensku bankanna á erlendri grundu, s.s. Icesave reikningana, sem féllu undir íslenskar innistæðutryggingar.
Þá hafi háir stýrivextir hvatt almenning og fyrirtæki til að taka erlend lán og erlenda aðila til að fjárfesta í íslenskri krónu vegna vaxtamunar. Um leið og erlendir aðilar hafi kippt að sér höndum hafi gengi krónunnar fallið með tilheyrandi verðbólgu. Skortur á frumkvæði Seðlabankans, en ekki síst ríkisstjórnarinnar við að endurmeta peningastefnuna hafi verið afar óheppileg.
Mjög er gagnrýnt hvernig staðið var að einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans. Ferlið hafi verið ógagnsætt og hagstæðari tilboð fyrir ríkissjóð á alla hefðbundna mælikvarða hafi verið sniðgengin.
Siðgæði og löghlýðni öðlist aukinn sess
Kaflinn um hagvöxt framtíðarinnar er eðlilega nokkuð litaður af því sem á undan er gengið. Þannig segir að siðgæði, jafnrétti, samhugur og löghlýðni þurfi að öðlast „aukinn sess" í því gildismati sem endurreisnin byggir á. „Forsenda árangurs þegar til lengdar er litið er ekki að læra „trikk" eða verða fær í viðskiptalegum „loftfimleikum" heldur að vera dyggðugur," segir í skýrslunni. Þá nái samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja og stjórnenda einnig til þess að krafan um „hámörkun" arðs leiði „ekki til þess að öllum meðulum sé beitt."
Meðal þeirra aðgerða sem nefndar eru sem nýtast myndu atvinnulífi væru tímabundinn skattafrádráttur til fyrirtækja vegna nýráðninga, hvati vegna góðgerðarstarfa og stuðningur við fyrstu skref einstaklinga við stofnun fyrirtækja, svo eitthvað sé nefnt.
Þá segir að huga þurfi að því hvort „ekki sé rétt að útvista eða setja í einkarekstur verkefni ríkis og sveitarfélaga „svo jafna megi kynjahlutfall til forystustarfa í atvinnulífinu. Þetta á m.a. við inna heilbrigðisstétta, umönnunarstétta og í skólamálum, svo fátt eitt sé nefnt."
Endurmat þurfi á flestum sviðum samfélagsins. Opna þurfi hagkerfið enn frekar og rjúfa endanlega einangrun landsins.
Segir að eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda nú sé að leggja grunninn að því með markvissum hætti að eignir ríkisins í atvinnurekstri verði á ný færðar með skilvirkum og gegnsæjum hætti í hendur einkaaðila.
Fólk verði ekki rekið úr húsnæði sínu
Í kaflanum um atvinnulíf og fjölskyldur segir að frjálst markaðskerfi sé án efa besta og skynsamlegasta leiðin í atvinnulífinu en til að komist verði hjá miklum hagsveiflum þurfi stjórn peninga- og fjármála ríkisins að vera á hendi stjórnvalda, „rétt eins og löggæsla." Sjálfstæðisflokkurinn verði að skapa traust á ný, m.a. með því að gangast við mistökum.
Hvetja þurfi almenning til að taka þátt í að endurreisa efnahagslífið og hann þarf að fá traust á að vel sé farið með sparnað. Taka þurfi upp skattalega hvata til sparnaðar og fjárfestinga á ný.
Segir að enginn þjóðhagslegur hagur sé í því að reka fjölskyldur úr íbúðahúsnæði sínu sem komnar eru í greiðsluþrot þegar nóg er af tómu og ónýttu húsnæði.
Þá þurfi ríki og sveitarfélög að deila stærri verkefnum niður til smærri þætti til að auðvelda innlendum fyrirtækjum að bjóða í verk, innan marka EES reglna.
Samningar um endurgreiðslutíma, vexti, erlend lán, verðtryggingu og endurfjármögnun þurfi að vera sveigjanlegir án þess að „viðhalda óraunhæfu ástandi."
Lækka þurfi stýrivexti strax og koma þeim á stuttum tíma í það horf sem er í nálægum löndum. Brýnt sé að ekki sé gengið að atvinnurekstri sem er kominn í þrot en hefur rekstrargrundvöll.
Bent er á að ríkið sé stærsti kaupandi þjónustu fyrir mennta-, heilbrigðis- og tryggingakerfi landsmanna. Þar liggi miklir möguleikar við að koma á nýsköpun og stofna sprotafyrirtæki sem myndu vaxa í skjóli kaupa ríkisins á þessari þjónustu.
Og vegna óvissunnar í atvinnumálum er áhersla lögð á að komast í gang með nýjar hugmyndir.
Opinn og frjáls markaður forsenda samkeppnishæfni
Í kaflanum um samkeppnishæfni segir að forsendur hennar séu opinn og frjáls markaður, með frjálsum og gjaldlausum aðgangi að útflutningsmörkuðum, hindrunarlaust flæði innflutnings, fjármagns, vöru, þjónustu og vinnuafls. Sömuleiðis sé stöðugt efnahagsumhverfi grunnforsenda.
Þá velti samkeppnishæfni landsins á þremur meginþáttum. Þeir séu í fyrsta lagi samkeppnisforskoti einstakra fyrirtækja og í öðru lagi aðgangur að sérhæfðum framleiðsluþáttum, s.s. þungum fjárfestingum og sérhæfðu starfsfólki. Í þriðja lagi velti samkeppnishæfnin á fyrirtækjaklösum sem örvi viðbragðshraða og sveigjanleika, breikki þekkingu og skapi nýjungar.