Prófkjör Sjálfstæðisflokksins vegna komandi alþingiskosninga í Norðvesturkjördæmi fer fram í dag. Sautján bjóða sig fram. Kjörstöðum verður lokað á bilinu þrjú til sjö í dag og atkvæði talin í Borgarnesi í fyrramálið.
Frambjóðendur héldu fjóra sameiginlega fundi, auk funda sem hver hélt fyrir sig. Af sautján frambjóðendum biðja sex um stuðning í 1. sæti, þar af nefna tveir einungis það sæti, Ásbjörn Óttarsson, forseti sveitarstjórnar í Snæfellsbæ, og Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður.
Atkvæði verða greidd til klukkan þrjú í dag, þar sem fyrst er lokað, en lengst er opið til klukkan sjö í kvöld. Atkvæðakössum verður safnað í kvöld í Borgarnes og byrjað að telja klukkan 9 í fyrramálið á Hótel Borgarnesi. Forsvarsmenn prófkjörsins vonast til að fyrstu tölur geti birst um hádegið en úrslit liggi fyrir um miðjan dag.