„Þetta voru nú bara almennar hugleiðingar,“ segir Steingrímur J. Sigfússon um orð sín að loknu formannskjöri Vinstri grænna í gær. Landsfundargestir staðfestu Steingrím í sessi með lófataki, en hann sagðist eftir tíu ára formennsku þó hafa hug á að hætta áður en menn yrðu dauðfegnir að losna við hann.
„Aðstæður hafa auðvitað þróast með slíkum ólíkindum að erfitt er að spá fram í tímann. En það stendur sem ég hef sagt, ég verð ekki eilífur í þessu hlutverki. Við erum svo heppin að hafa nóg af duglegu og hæfu fólki að við verðum ekki í neinum vandræðum með að endurskipuleggja forystu flokksins á næstu árum.“
Steingrímur þakkar það traust sem honum hefur verið sýnt innan flokksins og í sínu kjördæmi, út frá því þurfi hann í raun ekkert að fara að hugsa sér til hreyfings. Einhvern daginn muni honum eflaust sjálfum þykja orðið gott.
Á fundinum komu upp hugmyndir um að takmarka þann árafjölda sem forysta flokksins gæti setið. Í því samhengi var þó skýrt tekið fram að ekki væri meiningin að losna við einstaklinga í stjórninni, heldur væri um eflingu á lýðræði að ræða.
Steingrímur segir að sjálfum finnist sér slíkt vel geta komið til álita, að hafa innbyggða endurnýjunarreglu í flokknum. Þannig reglur mættu eiga víðar við en bara innan flokks Vinstri grænna.