Kristján Þór í formannskjör

Kristján Þór Júlíusson tilkynnir um framboð sitt til formanns. Hann …
Kristján Þór Júlíusson tilkynnir um framboð sitt til formanns. Hann hélt blaðamannafund á útsýnispalli í Vaðlaheiði, gegn Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og oddviti flokksins í Norðausturkjördæmis, tilkynnti fyrir nokkrum mínútum að hann byði sig fram til formanns. Kosið verður um nýjan formann á landsfundi flokksins þann 29. mars nk.

Helsti keppinautur Kristjáns Þórs um embættið er Bjarni Benediktsson en hann tilkynnti um framboð sitt í janúar.

Kristján hélt í dag fund með fjölmiðlamönnumá útsýnispalli í Vaðlaheiði gegnt Akureyri. Hann er búsetttur í höfuðstað Norðurlands, var þar bæjarstjóri árum saman og er nú forseti bæjarstjórnar.

Í yfirlýsingu Kristjáns segir:

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt mestan hljómgrunn meðal þjóðarinnar þegar stefna hans hefur náð að flétta saman hagsmuni allra stétta, þéttbýlis og dreifbýlis sem og ólíkra aldurshópa. Því þarf forysta flokksins að endurspegla sem best þær ólíku aðstæður sem almenningur í landinu býr við.

Ég hef síðastliðin 25 ár eða þar til ég tók sæti á Alþingi fyrir tveimur árum, helgað starfskrafta mína uppbyggingu sveitarfélaga og atvinnulífs á landsbyggðinni. Í því starfi skipti miklu að hafa trú á möguleikum hennar til að búa íbúunum góð lífsskilyrði. Ég tel að áratuga reynsla mín af því uppbyggingarstarfi, oft við erfiðar aðstæður, með íbúum og atvinnulífi, með fulltrúum annarra flokka, sé það sem íslensk þjóð og þar með Sjálfstæðisflokkurinn þurfi á að halda í dag.

Ég hef aldrei fengið pólitískan frama eða völd á silfurfati, en mér hefur ávallt verið treyst fyrir ábyrgð og hef lagt mig fram um að standa undir henni. Stjórnmálamenn hafa undanfarna mánuði orðið fyrir mikilli og réttmætri gagnrýni almennings og vantraust hefur grafið um sig í þjóðfélaginu. Í kjölfarið hefur komið fram eðlileg krafa um ábyrgð og endurnýjun. Sjálfstæðisflokkurinn verður, eins og aðrir að læra af því sem aflaga fór og endurheimta það traust sem hann hefur ávallt notið hjá þjóðinni. Það mikla verkefni verður forysta Sjálfstæðisflokksins að leysa af auðmýkt og með hagsmuni allra stétta í huga.

Ég er þess fullviss að störf mín að sveitarstjórnarmálum síðustu áratugi, sem í raun eru þverskurður landsmálanna og víðtæk reynsla af atvinnulífi Íslendinga til sjávar og sveita, nýtist í því uppbyggingarstarfi sem framundan er í íslensku samfélagi og auki þá breidd og víðsýni sem þarf að einkenna forystusveit Sjálfstæðisflokksins.

Á þeim grunni er framboð mitt til formanns Sjálfstæðisflokksins byggt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka